Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Vinnukonan og biskupsfrú í Skálholti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Vinnukonan og biskupsfrú í Skálholti

Nú bar það við nokkru seinna sama veturinn og áður er sagt að merkur bóndi í Skálholtssókninni dó og var færður til kirkju; en það var siður þá að grafa heldri menn innan kirkju. Var því bónda þessum tekin gröf í framkirkjunni og jarðsunginn fyrir embætti á sunnudag. En svo hafði viljað til að beinagrind af manni er leit út að væri af kvenmanni hafði komið upp úr gröfinni og var lögð undir krókbekk, því hún loddi öll saman, hafði gleymzt þarna þegar mokað var í gröfina. Lá hún þar um embættið og það eftir var dags. Um kvöldið fara skólapiltar að tala um þetta og er þeim sagt að beinin hafi gleymzt uppi. Líður nú kvöldið fram að þeim tíma að piltar fara að hátta. Koma þá þjónustustúlkur að taka þá úr fötum. Fara þá piltar að gaspra við þær hvört engin þeirra sé svo að þori að fara ein út í kirkju og sækja beinagrindina sem gleymzt hafi í dag og koma með til þeirra og bera svo út aftur. Sögðust þeir skyldu skjóta saman fé og gefa þeirri er þetta gjörði. Í þessu vóru nú allir piltar nema Vigfús sá er áður er getið. Nú gefur ein sig fram og segist vel treysta sér til þessa ef þeir standi bara við loforð sitt, hvörju þeir hétu þá. Fer hún nú á stað og út í gegnum undirgöng er lágu til kirkjunnar, og þegar hún kemur þar þrífur hún beinagrindina og kastar á bak sér og heldur svo sömu leið inn. En þegar hún er komin í miðjan ganginn þar sem hann er hvað þrengstur heyrir hún að grindin segir á baki sínu: „Æ! Þú meiðir mig!“ en hún lætur sér ekki bilt við verða, heldur segir: „Hissaðu þig þá betur upp á bakið á mér!“ Heldur hún svo áfram og inn til pilta sem biðja hana sem fljótast að fara til baka aftur sem hún líka gjörir. Þegar hún ætlar að leggja beinagrindina á sama stað aftur segir hún við stúlkuna: „Vel hefur þú nú gjört, en betur gjörðir þú ef þú bærir mig inn undir hornbekkinn í kórnum og létir mig liggja þar dálitla stund því þar hvílir biskupsfrúin undir og vorum við ósáttar þegar ég dó. Hefi ég því ekki getað rotnað alveg í gröfinni. Nú vil ég reyna að sættast við hana.“ Gjörir stúlkan þetta og víkur sér svo fram fyrir. Að lítilli stundu heyrir hún eins og tveir menn séu að hvíslast inn í kórnum, en heyrir samt ekki orðaskil þar til þessu að lítilli stundu liðinni hættir, og hún sér hvar beinagrindin kemur sjálf fram og segir við hana: „Nú er þetta búið. Erum við nú sáttar og á ég þér það að þakka,“ og í sama bili hrynur hún öll í sundur og verður að fölskva. Nú fer stúlkan inn og lætur ekki á þessu bera, en heimtar nú launin af piltum. En þá bregðast þeir illa við og segja þetta ekki það þrekvirki er launa sé vert, og með svo búið fer hún að hátta. Um nóttina dreymir hana að beinagrindin koma til sín og segja að dálítið hafi hún átt eftir að tala við hana og það sé það að vísa henni á dálítinn peningasjóð sem hún eigi að eiga í þokkabót fyrir greiðann við sig; hann sé undir þúfunni sunnan undir kirkjugarðshorninu. Um morguninn fer hún og grefur til þúfunnar svo að öngir vita. Finnur hún þar kistil með nokkru af peningum sem hún tekur. Þennan dag nefnir hún enn við pilta um það er þeir hefðu heitið sér; en það fór á sömu leið að þeir neita. Aðra nótt dreymir hana enn og þykir henni þá biskupsfrúin koma til sín og segja: „Þá á ég nú eftir að borga þér dálítið. Norðan undir kirkjugarðinum er kringlótt þúfa. Í henni er fólginn dálítill fjársjóður. Hann skaltu eiga, en mundu mig samt um að sleppa ekki skólapiltunum svo, að þeir borgi þér ekki það sem þeir lofuðu.“ Um morguninn fer hún og leitar uppi þessa þúfu og finnur hana og í henni talsverða peninga sem hún líka tekur og varðveitir. Þennan dag fer hún enn til pilta og heimtar að þeir efni orð sín; en þeir svara öllu því sama. Tekur þá Vigfús undir með henni og segir það skömm þeirra að svíkja svo loforð sitt, en þeir svara honum illu einu. Harðnar þá ræðan svo að þar kemur að Vigfús hótar þeim að segja biskupi og skólameistara frá þessu og muni þeir skipa þeim að efna orð sín við stúlkuna, en þeir gjörðu gys að þessu. Fór þá Vigfús og sagði biskupi og skólameistara frá öllu eins og til hafði gengið að fráteknu um peningafundinn, því stúlkan hafði sagt honum frá öllu hið sanna. Fóru þeir þá biskup og skólameistari til pilta og gjörðu þeim átölur fyrir brigðmælgin og skipuðu þeim að borga það lofaða, hvað þeir þá nauðugir viljugir máttu gjöra. Skömmu seinna hafði stúlka þessi gifzt fátækum manni, en að nokkrum tíma liðnum keyptu þau tuttugu hundraða jörð fyrir peninga hennar.