Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Vinnumaður og bóndadóttir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Vinnumaður og bóndadóttir

Það átti að hafa verið til forna ein hjón og áttu sér eina dóttur barna og svo hélt bóndi vinnumann og vildi hann eiga bóndadóttir, en hún vildi ekki. Svo bar til ein jól að fólk fór til kirkju, en stórt vatnsfall var á leiðinni til kirkjunnar og vildi vinnumaður reiða bóndadóttur yfir ána, en hún vildi ekkert af honum þiggja, en gamall maður var í ferð með og bað hún hann að reiða sig yfir ána og gjörði hann það. En vinnumaður sagði: „Ég skal reiða þig um önnur jól þó þú viljir ekki lofa mér að reiða þig nú.“ En eftir jólin dó vinnumaður og bar ekki til tíðinda fyrr en veturinn eftir um jólin. Þá var barið á dyrum hjá bónda og var farið til dyranna og sást enginn maður úti, og gekk svo tvisvar, en í þriðja sinni þegar barið var þá sagði gamli maðurinn við dóttir bónda að sá mundi vera kominn sem vildi finna hana og mundi vinnumaður vilja finna hana sem hefði heitið að reiða hana í fyrra til kirkju og mundi henni vera bezt að finna hann, en þó hann tali eitthvað til hennar þá skuli hún öngu svara honum. Þegar hún kom út stóð hann á hlaði, tók hana upp á hest og hélt af stað og sagði: „Hvað hangir í hnakka mínum, Gárún, Gárún?“ En þegar hann fór inn í kirkjugarðinn fleygði hún sér af hestinum og skildi þar með þeim.