Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ákvæðakveðskapur Fúsa

Úr Wikiheimild

Leirulækjar-Fúsi var kraftaskáld, og Sigurður Dalaskáld var það líka. Þeir mældu sér mót að reyna sig og fundust þeir til þess út á sjó sinn á hvorum báti. Áður en þeir fóru til lofaði hvor öðrum að allt skyldi vera í gamni og hvorugur skyldi gjöra öðrum mein með kveðskap sínum. Þeir kváðu hvor annan úr bátunum og flutu þeir á sjónum og kváðu svo. Fúsi fann að hann hafði ekki við. Þá sveik hann loforð sitt og kvað:

Hljóttu aldrei hjálpar von
af hlutum neinum góðum.
Gott ár, Sigurður Gíslason,
gegndu mér í ljóðum.

Svo lauk að Sigurður sökk, en Fúsi komst í land. Hann fór til bæjar Sigurðar um nóttina, kom á glugga hjá konu hans og kvað:

Sigurður dauður datt í sjó,
dysjaður verður aldrei.
Í ólukkunni hann út af dó
og af ramagaldri.

Þá kvað hún vísu sem týnd er. Hún hreif svo á Fúsa að eins var og hann fyki ofan af glugganum ofan á hlaðið. Hann kom hart niður og meiddist svo hann komst naumlega heim og lá lengi eftir.

Einu sinni var Fúsi að reka hross og rak þau í engjar nágranna síns. Hann kom á móti hrossunum og sigaði svo þau snéru aftur og Fúsi réði ekki við þau. Þar illskaðist hann og kvað:

Vertu aldrei ósigandi á ævi þinni,
sigaðu frá þér sál og minni
og sjálfum guði á dauðstíðinni.

Sá maður sigaði við hvurt orð upp frá því og það sem seinast heyrðist til hans í andlátinu var að hann sigaði.

Einu sinni var Fúsi í ferðalagi. (Sumir segja það hafi verið séra Hallgrímur, og er það ólíklegt.) Hann lá um nótt skammt frá einum bæ. Um kvöldið kom kerling frá bænum og sigaði á hesta hans, svo þeir stukku burt. Þá varð hann grimmur í skapi og kvað:

Sigaðu dauð, þín djöfuls gauð,
dryllan nauðbölvaða.
Hrapaðu snauð frá æru og auð
elds í rauðan skaða.

Hún sást ekki framar, en eftir það heyrðist oft sigað þar um kring á kvöldið þegar dimmt var orðið.

Einu sinni var Fúsi gangandi á ferð og kom að á sem hann gat ekki komizt yfir án þess að vaða, Þá kom stúlka ríðandi að ánni. Hann bað hana að reiða sig yfir ána að baki sínu, og það gjörði hún. Þegar þau komu yfir um fór Fúsi að skreiðast aftur af hestinum og kvað:

Hests fyrir lánið, hringaspöng,
heiður þinn ég skerði.
Þorsteinsdóttir Steinunn stöng
streðuð með hrosslegg verði.

Þá kvað hún:

Þú talar nú við þá tvinnabrík
sem tvenn hefir við þig þorin;
höktu nú sem hundur á tík,
helvízkur reðurborinn.

Þá varð Fúsi fastur í taglinu á hestinum og var þar að hökta þangað til stúlkan kom til næsta bæjar. Þá varð Fúsi laus og fór burt með sneypu.