Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kveðskapur Fúsa

Úr Wikiheimild

Eitt sinn þá er hann kom í kirkju tók hann Grallarann meðan presturinn var í stólnum, og ritaði þessa vísu innan um blessunarorðin:

Ég óska af öllu hjarta
að í margþúsund parta
tungan þín söxuð sé
og vörgum veitt til fæðis
vegna þíns skemmdaræðis,
bölvaður beinasne.

Síðan gekk hann út, en í því hann gekk fram eftir kirkjugólfinu sagði presturinn í ræðunni: „Kristur mun á síðasta degi segja við þá óguðlegu: „Farið burt, þér hinir bölvuðu,““ etc; greip Fúsi þá í prestskonuna og mælti: „Komum við þá, Randalín“ – svo hét prestskonan — „til okkar talar presturinn.“

Varð hann eftir það vitstola og gat ei orkt bögu svo vit væri í, eftir það. Síðan gekk hann heim að bæ sínum er Leirulækur hét, og brenndi hann til kaldra kola.

Þessa vísu gerði hann einnig við hjónaskál:

Brúðhjónunum óska eg
að þau eti vel smér,
fiskinn með feiknum rífi,
flotinu ekki hlífi,
ketið með kappi snæði
kvikindis-hjónin bæði.

Eitt sinn kom hann að bæ einum og var enginn heima nema konan. Hann biður hana að gefa sér að drekka; hún segist ei mega fara frá barninu sínu, hvurju hún var að vagga, nema hann vaggi á meðan. Hann gerir svo og hún fer ofan, sækir honum að drekka, kemur upp aftur og var hann þá að syngja þetta við vögguna:

Allir djöflar elti þig
innan um eina skrínu,
og eg dilla mínu.