Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ásmundarstaðir í Norðfirði

Úr Wikiheimild

Það er sögn að þegar Magnús Pétursson sem síðar varð prestur að Hörgslandi var í Skálholtsskóla, þá var þar einn piltur sem var næmari en allir aðrir; ekki er getið um nafn hans. Magnús og og hann voru mjög samrýndir og voru í einu rúmi báðir. Magnús var mjög ónæmur og gekk lítt lærdómurinn; var hinn þó að kenna honum á nóttinni og hvenær sem hann kom því við. Þjónustukvenmaður var þar einn sem þessi piltur lagði ástarhug á og nefndi það við hana, en hún þverneitaði að veita honum nokkra ásjá. Reiddist hann þá við hana og sagði: „Þó ég komist ekki yfir þig lifandi, þá skal ég þó komast yfir þig dauður.“ En hún lézt ei mundi hræðast hann lífs eða liðinn. Litlu þar eftir dó hann og er ekki getið annars en það bæri að á skaplegan hátt. Var smíðað utan um hann, og þegar það var búið er líkið kistulagt og látið standa út í kirkju. En næstu nótt þar eftir fer Magnús út í kirkju og þangað til er kistan stóð. Sér hann þá að lokið er af henni og hún tóm, en hjúpurinn liggur þar hjá. Magnús tekur hjúpinn og stekkur með hann upp á kirkjubitann, en það kunni enginn skólapilta að gjöra nema hann.

Þegar hann er búinn að sitja þarna litla hríð kemur draugsi að og gengur að kistunni og ætlar í hana, en sér þá að hjúpurinn er burt horfinn, fer þá að skyggnast um og sér hvar Magnús er á bitanum með hjúpinn, og segir: „Fáðu mér hjúpinn minn.“ Magnús segir: „Hvar varstu?“ „Inn í bæ,“ segir draugurinn. „Hvað varstu þar að gjöra?“ segir Magnús. „Ég var að komast yfir stúlku,“ segir draugsi. „Því gjörðir þú það?“ segir Magnús. „Af því hún vildi ekki gjöra vilja minn meðan ég lifði og ég hafði heitið henni þessu.“ „Er hún þá dauð?“ segir Magnús. „Því sem nær er það,“ segir draugsi, „en fáðu mér nú hjúpinn minn.“ „Ég skal nú fá þér hann snart,“ segir Magnús, „en er ekki hægt að lífga við stúlkuna?“ „Jú,“ segir draugurinn, „ég strauk allt lífið úr líkamanum og faldi undir litlu tánni og batt fyrir með hörþræði, en ef hann er leystur og líkaminn svo strokinn upp á við, þá lifnar hún; og fá mér nú hjúpinn.“ „Já, bráðum,“ segir Magnús, „en segðu mér fyrst hvurt nokkuð verður af samfundum ykkar, þín og stúlkunnar?“ Draugurinn segir: „Já, hún verður barnshafandi og verður það sveinbarn; hann mun verða efnilegur og gáfaður og verður vígður til prests.“ „Hvernig fer það?“ segir Magnús. „Það fer þannig,“ segir draugurinn, „að í fyrsta sinn og hann útdeilir fólki altarissakramenti mun kirkjan sökkva með öllu fólkinu.“ „Er þá ekki hægt að koma í veg fyrir þetta með neinu móti?“ segir Magnús. „Jú,“ segir draugsi, „en það má ég ekki segja þér.“ „Þá færðu ekki hjúpinn,“ segir Magnús. „Þá verð ég að segja þér þetta,“ segir draugurinn; „það ráð er við þessu að þegar presturinn snýr sér við fyrir altarinu til að útdeila, að þá gangi einhvur að honum og reki hann í gegn, en fá mér nú hjúpinn.“ „Gjörðu fyrst eina bón mína,“ segir Magnús. „Hvað er það?“ segir draugurinn. „Gefðu mér ögn af næminu sem þú hafðir,“ segir Magnús. „Komdu þá ofan,“ segir draugurinn og gjörði Magnús það. En þegar hann er kominn ofan segir draugurinn Magnúsi að leggjast niður og gjörði hann svo, en draugurinn spjó ofan í hann einni gusu og segir: „Viltu meira?“ „Nei,“ segir Magnús, enda var það gagn, því hefði draugurinn fengið að spýta ofan í hann meiru, þá hefði hann drepið Magnús. Nú stendur hann upp og fær draugnum hjúpinn og fer hann með það í kistu sína og bar ekki á honum framar. En Magnús fer inn í bæ og verður þess var að fólk er að stumra yfir stúlkunni og segir hana dauða, en hann leysti hörþráðinn og fór að öllu sem draugurinn hafði ráð til kennt, og raknaði stúlkan þá við. Verða menn þess brátt varir að hún er kona ei einsömul og að tilteknum tíma fæðir hún sveinbarn og var það skírt Ásmundur. Ólst hann upp og varð brátt efnilegur maður og hinn námfúsasti. Var hann settur í skóla og útskrifaður með bezta vitnisburði. Þá var prestlaust í Norðfirði og sótti Ásmundur um það brauð og var hann vígður þangað.

Nú er að segja frá Magnúsi Péturssyni að eftir það að draugurinn spjó ofan í hann varð hann svo næmur að hann yfirsteig alla skólapilta. Varð hann útskrifaður og síðan vígður til Hörgslands á Síðu. Hann varð prófastur og þótti merkismaður á sinni tíð og mjög margkunnandi. Eru frá honum margar sagnir.

Jafnan hafði hann hugfast það er draugurinn sagði honum og hélt spurnum fyrir um hagi Ásmundar, og þegar hann frétti að búið væri að vígja hann til Norðfjarðar sendi hann mann frá sér og sagði hann skyldi drepa séra Ásmund með þeim hætti er draugurinn hafði fyrir sagt, og kom þessi maður í Norðfjörð hér um bil jafnsnemma og prestur. Þá var kirkjustaður annars staðar en nú er og hef ég ei heyrt hvað hann hét. Fyrsta sinn er séra Ásmundur messaði kom margt fólk og ætlaði flest að vera til altaris, því þar hafði ekki verið messað í langan tíma; þar var og maðurinn frá séra Magnúsi. Fer öll messugjörðin sköruglega fram og bar ekki neitt til tíðinda fyrr en prestur snýr sér við fyrir altarinu til að útdeila fólkinu. Þá gengur sendimaður séra Magnúsar að honum og rak hann í gegn og hné hann dauður niður. Kirkjufólk þaut upp til handa og fóta og tók vegandann, en hann bað þá hafa hægt við og huga að þar er prestur var og gjörðu það einhvurjir, en þá sást ekkert nema messuklæðin og sjö blóðdropar. Hefur þá vegandinn upp alla sögu um uppruna séra Ásmundar og er þeir höfðu það heyrt þökkuðu þeir honum verkið.

Nú fóru sveitarmenn að ráðgast um hvað gjöra skyldi; þótti þeim ógjörningur að láta kirkjuna standa í sama stað eftir að þar höfðu slík tíðindi gjörzt. Fóru helztu sveitarmenn um sveitina að leita að kirkjustæði og er þeir komu hjá Skorastað þá heyrðu þeir klukknahljóð í loftinu og álitu að það væri bending um að þar skyldi kirkjuna setja, og var það gjört og stendur hún þar enn í dag. En kirkjustaðurinn er áður hafði verið var kenndur við séra Ásmund og nefndir Ásmundarstaðir og lagðist í eyði; það er milli Hóla og Kirkjubóls í Norðfirði. Er mér sagt að þar sjáist glöggt merki fyrir kirkjugarði og húsrúst innan í sem verið hefur kirkja. – Endar svo þessa sögu.