Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Órotinn maður í Strandarkirkjugarði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Órotinn maður í Strandarkirkjugarði

Einu sinni rak dauðan mann af sjó í Selvogi og vissi enginn hvaðan hann var. Hann var jarðaður á Strönd. Síðar var annar maður jarðaður við hlið hans. Þá fundu líkmenn að hinn sjórekni var órotinn og lá á grúfu. Honum var snúið við. Síðan var grafið við hina hlið hans miklu síðar; þá var hann enn órotinn og lá á grúfu. Enn var honum snúið og setti Eiríkur prestur spýtu upp úr leiði hans og mælti svo að ekki skyldi grafa við hlið hans meðan hún stæði, en er hún væri fallin þá væri það óhætt. Spýta þessi er fallin fyrir nokkrum árum.