Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þorleifs freistað við embættisverk

Úr Wikiheimild

Síra Þorleifur Skaftason var maður óspauggjarn og ekki uppnæmur fyrir hverju smáligu. Þó sagði hann svo frá sjálfur að þrisvar sinnum um ævi sína hefði það komið fyrir sig í kirkju að sér hefði torsótt vorðið að spyrna við freistingum satans og vorðið að halda kyrru um stund verki sínu. Var hið fyrsta er hann var eitt sinn í prédikunarstól og ræddi að venju sinni án blaða og gat því litið eftir öllu er við bar. Honum varð litið hvar kerling nokkur mikil og herfileg sat fremst í stól í norðanverðri kirkju og hraut mjög fast. Kerling bar á höfði skautafald mikinn og kámleitan. Hún tók bakföll stór undir ræðunni eður kollahnís áfram. Loksins gekk svo hart að henni að hún hraut á höfuðið fram á kirkjugólfið, og snaraðist faldurinn með umbúningi sínum víðs vegar brott af höfði hennar. Fegraðist þá ekki sýnin er grænar holdskurfur lágu í brýr niður. Ekki er getið úrræða kerlingar, en prestur þagnaði um stund og þurfti alls til að kosta að standast áhrifur freistarans.

Hið annað ásteytingarefni var að hann var enn staddur í stól fyrsta sunnudag eftir trinitatis og ræddi út af textanum um forlög ens ríka manns og Lazari og benti jafnframt á nær endurgjaldstíminn kæmi og dómari alls holds úrskurðaði laun hvorutveggi eftir verkum þeirra. Karl nokkur sat við hæla prests í ræðustólsdyrunum hvern mjög syfjaði og hraut fast. Prestur kvað upp dóminn með þrumandi raust til þeirra á vinstri hönd með þessum orðum: „Farið frá mér, bölvaðir, í eilífan eld sem fyrirbúinn er djöflinum og hans árum!“ Í þessu vaknaði karlinn, strauk um skallann, andvarpaði og mælti: „Ó, drottinn, gef oss það öllum!“ Presti varð hverft við og þagnaði um stund.

Hið fyrsta ásteytingarefni var að prestur var enn eitt sinn í prédikunarstól á hvítasunnu. Hafði hann lokið ræðu sinni og vildi lesa faðirvor. Brá honum svo undarlega við að hann mundi ekkert orð þar í. Kallaði hann þá upp og bað meðhjálparann lesa faðirvor fyrir alla, hvað hann og gjörði. Síðan vildi prestur blessa yfir fólkið, en það fór á sömu leið, að hann mundi ekki. Talaði hann þá til fólksins og bað það lesa blessunarorðin, hvern fyrir sjálfan sig, því andskotinn hefði stolið hvorutveggju úr hjarta sínu. Síðan gekk hann úr kirkjunni og rann hið snarasta austur fyrir kórgaflinn. Stóð þá Bjarni djöflabani, er af sumum var nefndur Latínu-Bjarni, á kórbaki. Var hann mjög rýndur og forn í skapi og átti í irringum við prest, og þykir sem hann hafi seitt frá presti minnisandann á óhentugri tíð. Ekki vita menn hvað þeim hefur í milli farið undir kórþilinu, en það er ætlun manna að verið hafi stirðar kveðjur, og leitaði Bjarni aldrei á prest síðan.