Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Vígt Siglufjarðarskarð

Úr Wikiheimild

Þorleifur Skaftason var lengi prestur að Múla í Þingeyjarsýslu og prófastur í sömu sýslu nokkur ár.[1] Þótti hann mjög fyrir prestum á sinni tíð í Norðurlandi flestra hluta vegna. Hann var maður mikill vexti og tröllaukinn að manndómi, raddmaður mikill og mælskumaður, sterkorður og andheitur. Því var hann kjörinn af biskupi Steini til að vígja svokallað Siglufjarðarskarð er liggur milli Fljóta og Siglufjarðar yfir fjallgarð þann er sýslur skilur. Er það fjallgarður mikill og líðandi brattur að vestan, en forbrekki mikið að austan og brekkan sneidd krókagötum. Fjallið að ofan er tindum vaxið og klettum helblám. Brún þess hin efsta er svo þunn sem saumhögg. Gegnum eggina liggja sem dyr, auðsjáanlega höggnar af fornaldarmönnum, með standberg á báðar síður. Gegnum dyrnar eru hér um fjórar hestlengdir, en vel klyfjafrítt á breidd. Yfir skarði þessu hafði legið síðan í heiðni andi nokkur illkynjaður er birtist í strokkmynduðum skýstólpa er kom úr lofti niður ofan yfir hvað helzt sem undir varð, maður, hestur eða hundur, og lá það dautt samstundis. Annmarki þessi varaði fram á daga Þorleifs prófasts Skaftasonar. Ferðaðist hann þangað með ráði Steins biskups og nokkrir prestar með honum og vildismenn. Hann hlóð altari úr grjóti annars vegar í skarðinu og hélt þar messugjörð með vígslu og stefndi þaðan vondum öndum og í skarð það eður hraungjá er sunnar nokkru liggur í fjallsbrúninni og kallast Afglapaskarð. Þykir þar æ síðan ískyggilegt. Hefur og nokkrum sinnum vorðið þangað mönnum gengið í villu og bana beðið. Siglufjarðarskarð hefur aldrei síðan vorðið mönnum að meini. Mælti síðan Þorleifur svo fyrir að hver sem yfir skarðið færi skyldi gjöra bæn sína við altarið, og mundi þá vel duga. Sér þessa altaris merki enn í dag.

  1. Séra Þorleifur var prestur á Múla frá 1724 til 1748 og héraðsprófastur frá 1734 þangað til hann dó (1748).