Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Af Þormóði og Hafnareyja-Gvendi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Af Þormóði og Hafnareyja-Gvendi

Annar versti fjandmaður Þormóðar var Guðmundur í Hafnareyjum Sigurðsson; var hann kallaður Hafnareyja-Gvendur. Guðmundur var fjölkunnugur og sagt var að þeir Þormóður ættust löngum illt við, en ógjörla vita menn hvað þeim bar á milli í fyrstu, og sendi Þormóður honum sendingu. En svo var Gvendur ramgöldróttur að hann sendi honum margar aftur, og kom Þormóður þeim jafnan fyrir og flestum með kveðskap að sagt er.

Einu sinni sat Þormóður á palli í rökkri er einn draugurinn kom að honum og varð þá Þormóði heldur hverft við, því hann var varbúinn við honum. Þóra dóttir hans sat skammt frá honum; en karli urðu ljóð á munni svo hún vissi hvað um var að vera:

„Álfar hreykja issum sín,
eldi feykja mér fyrir brýn;
þankann veikir þeirra grín,
þú mátt kveikja dóttir mín."

Þóra kveikti og kom með ljósið; svo gat Þormóður fyrirkomið draugnum. Sumir segja að sá draugur kæmi þó upp aftur, en aðrir að það væri önnur sending frá Gvendi. Kom hún að Þormóði í smiðju og ætlaði að grípa hann. Varð honum það þá fyrir að hann mælti í sífellu óráð og endurleysu þessa: „Taktu konuna, taktu ekki konuna; taktu börnin, taktu ekki börnin; taktu kúna, taktu ekki kúna; taktu bátinn.“ Hljóp þá sendingin að bátnum og greip hann; en við það áttaði Þormóður sig, hljóp eftir sendingunni, náði í stefnið og hélt því einu eftir. Þegar draugurinn hafði brotið bátinn í spón og dreift brotunum víðs vegar kom hann aftur og vildi gera Þormóði meira tjón; en þá var hann við búinn og gat sett drauginn niður í sker eitt. Það er haft eftir Sigrúnu, dótturdóttur Þormóðar sem fyrr er getið, að þegar Hafnareyja-Gvendur sendi Þormóði marga drauga í senn gæti hann ekki séð hvort þeir væru úti eða inni. En Brynhildur var óskyggn og sá engan þeirra; Þormóður bað hana þá að ganga út á undan sér, en hann hélt aftan í pils hennar. Þegar þau voru komin út bað hann hana fara inn aftur og loka bænum, en hann sagðist mundi verða úti við að mæta komendum. Alla nóttina var hann úti að fyrirkoma sendingunum; en um morguninn þegar Brynhildur lauk upp bænum var Þormóður fyrir dyrum úti þrekaður mjög.

Öðru sinni kom sending að Þormóði og þegar hann hafði sært hana frá sér sá hann að kýr sínar tóku stökk undir sig; sendi hann þá dætur sínar að komast fyrir þær, en það tjáði ekki og hlupu beljur því meir. Sá hann nú að þær mundu ætla að hlaupa í sjóinn og fór því sjálfur; voru þær þá komnar ofan í fjöru þegar hann gat snarað fyrir þær húfunni sinni. Við það spektust þær og lögðu heimleiðis aftur.

Sagt er að Hafnareyja-Gvendur sendi Þormóði alls sjö sendingar, en magnaði nú hina áttundu og var hún nálega tröll að vexti. Þegar draugur þessi kom í Gvendareyjar var dagur að kvöldi kominn og er sagt að Þormóður þyrði ekki að fara út og mæta honum, en bað Þóru að fara til dyranna fyrir sig. Gekk hún svo út og særði burt drauginn og sváfu þau Þormóður í næði fyrir honum um nóttina. En það er frá draugnum að segja að hann hvarf aftur heim til Gvendar og er sagt að hann magnaði hann að nýju og sendi hann svo á stað aftur að drepa Guðrúnu eldri Þormóðsdóttur sem áður er getið, hvort sem hún bjó þá í Stagley eða Kiðey.

Þeim Guðrúnu og Oddi manni hennar lynti aldrei saman enda var Gunna sögð ákaflega skapstór og óhemjuleg; þó áttu þau börn saman. Þessa sömu nótt sem Þóra hafði sært burt drauginn frá Gvendareyjum varð þess vart að einhver ósköp og hamsleysi kom á Guðrúnu svo hún réð sér ekki. Vitjaði þá Oddur Þormóðar og bað hann koma að hjálpa dóttur sinni. Þormóður tók því seinlega, en fór þó; er þá sagt hann tæki það ráð að flytja Gunnu á land til Þingvalla. Þegar hann var kominn undir land reis boði í logni svo flestu skolaði út sem lauslegt var innanborðs og þóftufyllti bátinn. En í sama vetfangi og boðinn skall á Gunnu náði Þormóður í hana; er þá sagt hann kvæði vísu og svitnaði við. Við það náði hann landi og gat borgið dóttur sinni í það sinn, en þó varð henni ekki frítt síðan sem áður segir.[1]

Sagnir eru um það aðrar að Þóra Þormóðsdóttir flytti alla þá drauga á skipi til lands sem Hafnareyja-Gvendur sendi föður hennar því Þormóður vildi fyrirkoma þeim á landi, en bannaði Þóru að tala nokkuð á leiðinni; sjálfur sat hann berhöfðaður í stafni. En þegar kom á sundið tók báturinn að síga og sagði Þóra þá: „Nú tekur ærið að síga faðir minn,“ en við þessi ummæli Þóru seig þó báturinn enn um umfar og sló Þormóður þá til hennar húfu sinni þegjandi. Treystist Þormóður ekki að halda til lands og reri á boða einn sem var á leiðinni og setti þar niður draugana. Þar heitir síðan Draugaboði.

Eftir það sættust þeir Þormóður og Hafnareyja-Gvendur að kalla. Þormóður falaði jafnan kver eitt að Gvendi, en Gvendur vildi ekki láta; þó hét hann Þormóði því áður en hann dó að hann skyldi fá kverið eftir sig dauðan og mundi það liggja á klettahillu einni norður á eyjarenda og mætti hann þar að því ganga. Þegar Gvendur var dauður ætlaði Þormóður að ná kverinu og reri undir klettana þangað sem honum var til vísað og sá kverið á hillunni og blöktu í því blöðin fyrir vindi. Klettahillan var svo há að hann náði ekki til kversins úr bátnum; klifraði Þormóður svo upp á hilluna, en þá var kverið horfið. Þegar hann kom aftur í bátinn sá hann enn kverið á sama stað, en jafnan fór eins þegar hann reyndi að ná því og varð hann svo búinn frá að hverfa og þóttist enn gabbaður af fjölkynngi Gvendar þó hann væri dauður.[2]

Heldur þótti örla á því að Gvendur lá ekki kyrr eftir dauða sinn; gekk hann drjúgum aftur og kvaldi bæði menn og fénað eða drap. Fór þá svo að Þormóðar var leitað til að ráða bætur á þessum vandræðum. Þormóður fékkst lengi við að kyrrsetja Gvend og að lyktum lét hann grafa hann upp og brenna skrokkinn til ösku. Sjá má það að gustkalt hefur Þormóði verið til Gvendar og nálega aldrei þótt óhætt fyrir honum, og er vísa þessi sem Þormóður kvað um Gvend til sannindamerkis um það:

„Þó lagður sértu[3] á logandi bál,
líka að ösku brenndur,
hugsa ég til þín hvert eitt mál
Hafnareyja-Gvendur.“
  1. Aðrir segja að Guðrún hafi ærzt við þessa draugssendingu Gvendar og farið sér fram af björgum í Kiðey sem áður segir, gengið svo aftur eða verið vakin upp og mögnuð af Gvendi og sótt að þeim Þormóði og Þóru, en þau hjálpazt að að koma henni burtu; hafi hún þá orðið mesta meinvættur sumra nágranna sinna, en verst færi hún með bónda sinn í Kiðey, flæmdi hann þaðan með börnunum, og byggðist sú ey ekki lengi síðan. Sveinn Ögmundsson hefur svo frá sagt.
  2. Sveinn [Ögmundsson] segir að Þormóður hafi átt kverið og heitið Gvendi því eftir sig dauðan, en þegar Gvendur ætlaði að taka kverið færi eins og hér segir að ofan.
  3. „væri' ég“ hefur Sveinn Ögmundsson.