Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Glettur smádrauga
Ýmsar eru fleiri sagnir um viðureign Þormóðar við drauga sem minna kveður að og skal hér enn tveggja getið, og sýnir önnur þeirra að menn hafi virt svo sem áður eru sögð dæmi til að Þormóður hafi ekki ávallt verið viðbúinn í fyrstu að taka á móti draugum og þurft stundum liðsinnis við annaðhvort af Þóru dóttur sinni eða Brynhildi konu sinni.
Eina nótt vakti Brynhildur Þormóð og sagðist ekki geta sofið. Hann spurði hvað til kæmi. Hún segir: „Heyrirðu ekki ólætin úti sem standa mér fyrir svefni?“ „Gefðu þig ekki að því fuglinn minn;[1] grúfðu þig niður,“ segir Þormóður. Hún segir: „Smánastu ofan Þormóður.“ „Ég skal gera það,“ segir hann, „en farðu þá ofan fyrir stigann á undan mér.“ „Ef þú þorir það ekki sjálfur,“ segir hún, „þá er ekki annað en gera það;“ fór hún svo á undan honum. En þegar ofan kom bað hann Brynhildi að ganga aftur til hvílu. Er sagt að áður Þormóður lyki upp dyrum væri ólætin af.
Önnur sögn er það að vinnukona Þormóðar kallaði til hans um nótt og sagðist ekki geta sofið því þegar ætlaði að renna í brjóstið á sér væri eins og sagt væri við eyrað á sér í sífellu: „Kampahý, kampahý.“ Þormóður sagði að slíkt væri heimska ein og bað hana, fuglinn sinn, að hafa kyrrt um sig, en fór þó sjálfur ofan og til sjávar. Í því var hrifinn bátur hans svo að Þormóður náði aðeins í fremra hluta hans.[2]