Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Af Fúsa og Sigurði Dalaskáldi

Úr Wikiheimild

Á öndverðum dögum þeirra Fúsa og Sigurðar lá draugur einn á Hellisfitjum og hafði aðsetur sitt í Surtshelli. Var draugur þessi hinn rammasti óvættur og lagðist á ferðamenn, meiddi þá eða ærði, og sumum vann hann bana, og þótti ei fært að fara frá Kalmanstungu norður yfir heiði fyrir óvættinum af Hellisfitjum. Sáu menn að ekki mátti svo búið standa, en fáir treystust þó til að setja niður jafnmegnan draug og þessi var. Var þá leitað til við þá Fúsa og Sigurð því menn vissu þá bæði fjölkunnuga og kraftaskáld hin mestu, og vóru þeir tregir til, en létu þó loksins til leiðast með því báðir færu saman og hjálpuðust að.

Lögðu þeir nú snemma morguns frá Kalmanstungu einn góðan veðurdag, var það öndvert sumar, og komu snemma dags norður að Surtshellir. Urðu þeir ekki draugsins varir þegar þeir komu því hann var niðri í hellinum og heyrðu þeir þungar drunur niðri í hinum dimma hellisgeim og þótti sem ekki mundi allfýsilegt að heimsækja hellisbúann. Tekur þá Sigurður til máls og segir við Fúsa: „Nú verðum við að skipta með oss verkum; verður annar okkar ofan að fara og fást við drauginn og hætta á hvörsu til tekst, en hinn að gæta dyra að draugurinn megi ekki upp komast – og kjós þú nú félagi hvörn kostinn þú vilt taka þó hvörugur sé ríflegur“. Kaus Fúsi að gæta dyra.

Sigurður tók úr barmi sér bók eina fornlega mjög, lagði á hellisdyrnar, gekk þrisvar rangsælis kringum bókina, signdi sig síðan öfugt og steig niður í hellismyrkrið. Segir ekki frá því hvað í hellinum gjörðist milli þeirra draugs og Sigurðar eða hversu Sigurður gat draugnum niður komið, en aldrei hefur síðan við drauginn vart orðið; en það er eftir Sigurði haft að aldrei hafi hann í jafnkrappan dans komizt og þar í hellinum, og þá var komið að sólsetri er hann komst aftur upp úr hellinum, móður mjög og þrekaður. Var þá Fúsi allur á burt og bókin Sigurðar. Hafði Fúsi stolið henni á meðan Sigurður var niðri og hlaupizt síðan á burt sem fætur toguðu. Brá Sigurði mjög í brún og undi bókarhvarfinu mjög illa, en fékk þó ei að gjört því Fúsa fann hann hvörgi og bókinni náði hann aldrei síðan. Vóru þeir síðan fullir fjandmenn alla ævi og áttu mörg brögð saman þó vér kunnum frá fæstum að segja.

Einu sinni fór Sigurður skreiðarferð á skipi innan úr Dölum út undir Jökul. Segir ekki frá ferðum hans fyrri en hann var á leið kominn til baka. Var þá byr góður og skipið skreið undir segli og sat Sigurður undir stýri fyrir aftan stakk. Sáu menn þá stórfisk koma upp ekki alllangt frá skipinu og svam hann óðfluga að skutnum svo ekki var undanfæri og að Sigurði og kippti hönum útbyrðis, en gleypti þó ekki. Sigurður svam lengi eftir skipinu og leituðu hásetar á allar lundir við að ná hönum, en gátu með engu móti, og lauk svo að þeir sáu hann loks sökkva.

Sama dag réri Leirulækjar-Fúsi við þriðja mann á báti fyrir Mýrar. Þegar þeir vóru í sátri vissi ekki fyrri til en Fúsa var í svip kippt útbyrðis af bitanum. Náði Fúsi sundtökum og svamlaði lengi og gekk þó mjög erfitt að halda sér á floti, framar því sem venja var, unz hann gat náð í borðstokkinn. Vildu þá menn hans draga hann inn, en gátu með engu móti; svo þungt fannst þeim neðan í toga. Fúsi bað þá losa aðra hönd sína og gjörðu þeir svo. Fúsi fer inn í barm sinn og tekur þaðan bókina er hann forðum hafði stolið frá Sigurði, kastaði henni af hendi í sjóinn og sagði: „Taktu nú við bölvaður; þú hefur lengi eftir henni sótt.“ Losnaði þá Fúsi og drógu hásetar hann inn og gekk greitt. Þá mælti hann: „Fast var á tekið að ofan, en fastara þó að neðan. Nú er Siggi dauður, en sá er munurinn okkar að Fúsi flaut, en Siggi sökk.“ Þá kvað Fúsi vísu þessa:

„Sigurður dauður datt í sjó,
dysjaður verður aldrei,
í illu skapi út af dó
og í ramma galdri.“

Nóttina eftir þenna dag dreymdi konu Sigurðar að komið væri upp á gluggann yfir rúmi hennar og kveðin þessi vísa:

„Gakktu fram á Gýgjastein,
gjörðu svo mín kvinna;
liggja þar mín látin bein,
ljóst muntu þar finna.“

Næstu nótt þar eftir dreymdi hana enn að komið var á gluggann og kveðið:

„Gakktu fram á Gýgjastein,
– gjótan er þar furðu mjó,
bar mig þangað báran ein –
og bjargaðu mér undan sjó.“

Þóttist hún í hvörtveggja sinn þekkja þar rödd bónda síns.

Enn dreymdi hana hina þriðju nótt að komið var á gluggann og kveðið með sömu rödd:

„Eg veit hvör á mig ratar
og aldrei gleymir mér:
sá sem ei sínum glatar,
son guðs, því allir vér
lifandi og liðnir bæði
lífgumst þá jarðar sæði
herrans röddu heyrir.“