Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Af Möngu og Tómasi presti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Af Möngu og Tómasi presti

Tómas hét prestur er þá hélt Stað á Snæfjöllum, næst eftir Jón prest Þorleifsson, föður Snæfjalladraugs, því enginn finnst þar prestur talinn milli þeirra. Tómas prestur átti fyrir fyrri konu Margrétu Gísladóttur, en fyrir seinni Galdra-Möngu, og er sú saga til þess sem hér segir þó nokkuð fari tvennum sögnum:

Eitt kvöld um hávetur var það að smalamaður prests hýsti féð í húsunum sem voru inn á túninu, og þegar hann var búinn að því ætlaði hann að strá heyi á jötur, en þegar hann kemur í heystæðuna við hæsta húsið verður hann var þess að þar í geilinni er eitthvað kvikt fyrir. Spyr hann hver þar sé og fær það svar að það sé stúlkuskepna. Hann spyr hana að nafni og hvaðan hún sé aðkomin. Hún kvaðst heita Margrét og vera úr Aðalvík og hafa um daginn komið yfir Snæfjallaheiði og dregið sig hér inn. Manninum blöskraði að hún skyldi þann dag hafa komizt yfir heiðina því moldkafald hafði verið allan daginn. Kennir hann mjög í brjósti um stúlkuaumingjann og býður henni að koma heim í bæinn svo að henni verði hlynnt eftir þörfum. Hún kvaðst ekki mundi fara til bæjarins að sinni, en í fjárhúsunum vildi hún dvelja. Biður hún hann um að geta ekki um sig við neinn; hann lofar því og færir henni mat í húsið um kvöldið svo enginn vissi. Dvelur hún nú þannig á laun í húsinu í þrjá daga og þrjár nætur að hún vildi ekki koma til bæjarins og maðurinn færir henni af mat sínum. Kvaðst hún hljóta að vera þar þangað til hún gæti fengið að sjá prestinn áður en hann sæi sig.

Fjórða daginn fylgir smalamaður fé prests og stendur yfir því inn og upp í fjallinu; var veður fjúkandi og skuggalegt og vill prestur gæta út og sjá hvað manninum líði. Gengur hann því upp fyrir bæinn og á litla hólflöt fyrir sunnan lækinn. Gengur hann þar um gólf dálitla stund. Þar blöstu við honum dyr húss þess sem Margrét var í og sér hún hann nú þótt hann sæi hana ekki; ætlar hann að fara til bæjarins aftur, en getur ekki, og í enga átt aðra kemst hann nema beint á húsdyrnar. En þegar hann kemur að húsinu sér hann ókunnuga stúlku þar í húsdyrunum; lízt honum hún fögur og fellir brátt ósjálfráða elsku til hennar. Þau heilsast og talast við. Býður hann henni heim í bæinn með sér og fer hún; en þegar að bænum kom vill hún ekki fara þar inn og biður hann að lofa sér í kirkjuna, og þegar þau koma þar vill hún hvergi vera nema í altarinu og lét hann það eftir henni. Biður hún hann um að geta ekki um sig við konu hans og heitir hann því. Líður nú svo vika að Margrét er í altarinu og prestur færir henni matinn. Veit enginn á bænum af henni nema presturinn. Þegar vikan er liðin biður Manga prestinn að lofa sér að sjá konu hans; hann lofar því og fær konu sinni eitthvert erindi í kirkjuna. Þegar konan kemur í kirkjuna sér Manga hana úr altarinu. Konan gengur inn eftir gólfinu. En þegar hún kemur að kórdyrunum sér hún altarið opið og Möngu þar inni; bregður henni svo við sjón þessa að hún hnígur dauð niður. Varð öllum mikið um fráfall konunnar því hún var valkvendi, en alla undraði hversu vel presturinn bar það. Þegar konan var dauð dró Manga sig í bæinn og tók brátt við búsforráðum; leið ekki á löngu að hún þótti þar öllu spilla, bæði á heimilinu og um sóknina. Prestur unni henni mjög og er það sögn sumra að hann gengi að eiga hana og víst er það að hann átti barn með henni.

Nú vissu menn hvar Manga var niður komin og kom því galdramál hennar fyrir sumarið 1660 á alþingi og var henni dæmdur tylftareiður og skyldi hún þá sýkn ef hún kæmi honum fram innan tíu vikna, en sek að öðrum kosti. Tómas prestur hafði nú tekið að sér að verja mál Margrétar og það af kappi og þó viturlega. En af því lét Brynjólfur biskup dæma hann frá prestsskap og meðfram fyrir barngetnaðinn með henni; missti hann þannig Stað á Snæfjöllum og var hann veittur Hannesi presti Benediktssyni, norðlenzkum að ætt; og segja sumir að Tómas fengi séra Hannes undireins og hann kom að Stað til að gefa sig saman við Möngu og að Manga hafi fyrst komið að máli við prest og talið honum hughvarf, því kvenna var hún sögð mælskust og að mörgu allkæn, en hversu sem það var telja ættartölur Möngu seinni konu Tómasar prests. Tvö hin næstu sumur eftir var henni enn dæmdur hinn sami tylftareiður á alþingi og ætla menn að hún hafi þá loksins unnið hann 1662 og frelsazt með því. Svo er að sjá sem Tómas og Manga hafi verið saman níu eða tíu ár, en hann andaðist gamall 1670. En aðrar sagnir segja að Tómas prestur hafi eftir það hann átti hana kennt á klækjum hennar engu síður en aðrir og hafi svo lyktað eftir fá ár að fé hans hafi verið að þrotum komið og hann sjálfur í fyrirlitningu hjá öllum; einnig hafi þá verið hafin rannsókn um breytni Möngu og galdrakukl, og varð það þá bert að hún sökum galdra sinna hefði verið flæmd burt úr Aðalvík; var henni gefið það að sök að hún með göldrum hefði tælt prestinn og drepið konu hans, og margar aðrar sakir bárust að henni. Var hún dæmd frið- og líflaus og belgur dreginn á höfuð henni og hún flutt inn eftir Snæfjallaströnd og kæfð undir fossinum í Innri-Skarðsá.