Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hrakningar Möngu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hrakningar Möngu

Það bar til í Trékyllisvík á Ströndum þegar prestur sá er Þorvarður hét Magnússon hélt Árnes að þar í kirkjunni undir tíðagjörð fengu sex eða sjö konur aðsvif eða öngvit með froðufalli svo menn urðu að bera þær allar úr kirkjunni; var almennt mælt að þetta væri af fjölkynngi og trúðu menn því. Ærsli þessi voru kennd konu þeirri eða mey sem Margrét hét Þórðardóttir; sumir segja að hún væri dóttir Þórðar þess er talinn var einhver hinn fjölkunnugasti maður á Ströndum; átti nú að taka hana og að líkindum brenna eins og siður var til um galdramenn, en hún gat strokið og duldist síðan á ýmsum stöðum. En sumarið 1656 á Öxarárþingi var hún ákærð fyrir galdur og strok; var því lýsing hennar rituð og er hún svolátandi: „Hún er á meðalvexti, ljósleit, kinnbeinahá, léttfær, skynsöm í máli, kveður nálega kvenna bezt.“

Enga vissu hafa menn um hvar Margrét dvaldi á flótta sínum, en sögn manna er það að hún hafi verið mjög slungin og séð, og er það í frásögur fært að hún kæmi einhverju sinni á bóndabæ einn, en ekki er þess getið hvar það hafi verið; kom hún sér þar inn hjá konunni og hélt hún Margrétu á laun við mann sinn um hríð; en svo bar við að maður nokkur þar nálægt átti um of vingott við konuna; var það einu sinni á túnaslætti að bóndi fór út snemma morguns til sláttar, en af því honum þótti kona sín fara of seint á fætur að skammta litla skattinn er siður var í þá daga fór hann heim að rúmi þeirra og ætlaði að vekja hana, en þá sýndist honum maður hjá henni í rúminu; hann talaði þó ekkert um, en gekk út aftur til sláttarins og hugði að tala um þetta síðar, en af því konan vissi að hann kom að rekkju þeirra klæddist hún skjótt, fann Margrétu og bað hana ráða; er þá sagt hún legði henni fyrir hversu hún skyldi fara að þegar hún bæri manni sínum litla skattinn; þess vegna lét hún tvo spæni í askinn og þegar hún kom til manns síns var hann styggur og þegar hann sá tvo spæni í askinum mælti hann: „Ég hef ekki tvo kjaftana.“ Hún mælti: „Gott gekk mér til, ég hugði að þú vildir bjóða henni að matast með þér er ég sá í slægjunni hjá þér í morgun.“ Hann kvað enga verið hafa. „Það getur vel verið,“ mælti hún, „því það er svo oft að hjónunum missýnist.“ Þá er mælt að bóndi héldi að svo mundi geta hafa farið fyrir sér um morguninn, og talaði hann því ekki meira um það svo ekki varð það að sundurlyndi.

En hvað síðan varð um Margrétu vita menn ekki þangað til hún flúði vestur á Snæfjallaströnd; dvaldi hún þar á bæ þeim er á Bæjum heitir; er sagt að þar byggi ekkja ein ung, vel fjáreigandi; en sökum þess að maður einn úr Súgandafirði, sumir segja úr Arnarfirði, hafði beðið hennar, en hún synjað honum, sendi hann henni draug; átti hann að ónáða hana á hverri nótt og kvelja. Hún átti þá aldrei frítt í rúmi sínu, en sökum þess að fjölkynngisorð var komið á Margrétu sagði hún henni frá vandræðum sínum; er þá sagt að Margrét fengi henni varnir nokkrar, en þegar það tjáði ekki og að engu minnkaði aðsóknin að ekkjunni tók Margrét það ráð að hún sjálf svaf fyrir framan ekkjuna, en þegar draugurinn kom að rekkjunni var eins og honum hnykkti við þegar hann vissi Margrétu þar komna, en vildi þó að þeim; varpaði Margrét þá til hans linda sínum; greip hann þá enda hans, en sjálf hélt hún í annan; festist þá draugurinn við lindann. Þá, fór Margrét á fætur og teymdi hann, þótt nauðugur væri, alla leið ofan til sjávar. Er þá sagt hún særði hann að fara til heimkynna sinna og hvyrfi hann við það í sjóinn. Urðu þá fiskimenn síðan varir við hann og kom hann stundum upp í selslíki; var hann auðþekktur á því að hann dró jafnan linda Margrétar; hann gerði oft busl mikið að þeim svo þeim lá við áföllum þangað til Margrét reri með þeim einn dag til fiskjar, og hafði hún þá ekki annað meðferðis en saur í kirnu eða koppi og skvetti hún honum á selinn þegar hann kom upp, og er það sögn að hann kæmi ekki upp framar né yrði að meini.