Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Brennivínsankerið

Úr Wikiheimild

Svo er sagt að bændur tveir komu til Eiríks prests á Vogsósum; þeir voru með sinn áburðarhestinn hvör og komu úr útveri. Var annar ríkur, en hinn fátækur og áttu heima einhvörnstaðar fyrir austan Ölvesá. Hinn ríki átti hálfanker með brennivíni í böggum sínum, en hinn fátæki hafði ekki brennivín meira en á einum smápela. Prestur beiddi þá að gefa sér að smakka brennivín ef þeir gæti. Hinn ríkari sagðist ekki geta það, en hinn fátæki sagðist hafa brennivín á litlum vasapela og væri honum það velkomið, en meira sagðist hann ekki geta. Prestur kvað sér duga að fá pelann og bað hann vitja sín þegar hann færi í útver næst; játaði bóndi því. Síðan fóru þeir sína leið og er ekki getið um ferð þeirra fyrr en þeir fóru austur yfir Ölvesá í Óseyri; þá vildi svo til að klyfið ríkari bóndans sem brennivínsílátið var í hrökk af skipi í ána og náðist ekki. Leið svo þar til um veturinn að menn fóru í útver; þá voru fyrnefndir bændur samferða og gistu að Vogsósum. Tók prestur þeim vel og sagði að mál væri að borga manninum brennivínið því hann mundi vera fátækur. Fekk hann þá bónda sauðarfall og smjörfjórðung. En hinn bóndann spurði prestur hvört hann hefði ekkert misst þegar hann fór úr útverinu næst. Hinn lét lítið yfir því, en misst kvaðst hann hafa bagga í ána og mundi ei þurfa að spyrja að honum. Prestur segir að daginn eftir að þeir fóru austur yfir Ölvesá hafi rekið hjá sér bagga með reipi og öllu heilu Og segist hann ætla að í honum sé hálfanker með brennivíni og leiði enginn sig að þessu. Bóndi mundi þá til þess sem fram fór um vorið, segist eiga bagga þennan og bauð nú presti að fá keypt og jafnvel gefið nokkuð úr ankerinu. En prestur segist ekki þurfa brennivín í þetta sinn. Fannst þá bónda fátt um. En fátæki bóndinn færði presti upp frá þessu brennivín í hvört sinn sem hann kom úr útveri, og fékk í staðinn sauðarfall og smjörfjórðung sem hann tók þegar hann fór til sjávar.