Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Brennivínskvartélið

Úr Wikiheimild

Eiríkur prestur var jafnan fátækur; var það oft siður hans að ganga á veg fyrir ferðamenn og biðja þá um á pela eða í hið minnsta að súpa á. Einn sem kom sunnan úr Keflavík og flutti brennivínskvartél synjaði Eiríki um minnsta smekk þar af og hélt áfram austur í Óseyri. Sá hestur sem kvartélið var á fór á undan, því lestin var rekin. Hann stanzaði ekki við og lagði í ána og synti yfir. Allt hélzt á honum nema kvartélið. Það rak síðan á Vogsósareka óspillt og gjörði Eiríkur manninum orð af því og varð hann feginn og sókti það, en aðrir segja hann gæfi það Eiríki.

Annar sem neitaði Eiríki um brennivínssmekk flutti tvö brennivínskvartél á ljósum hesti og sat dálítil stúlka ofan á milli. Maðurinn rak austur í Óseyri og vóru þar fyrir margir menn. Einn er nefndur Brynjúlfur frá Baugsstöðum, rammur að afli. Lýsingur hélt áfram og lagði í ána. Brynjúlfur hleypur til og vill taka hestinn og nær um klyfberabogann, en hesturinn stöðvast ei að heldur og brýzt áfram, en svo fast hélt Brynjúlfur að allar gjarðir slitnuðu og hélt hann eftir klyfberanum og kvartélunum og stúlkunni. Aðrir tóku reiðinginn því hann féll niður, en hesturinn synti austur yfir með beizlinu einu. Þegar Eiríkur frétti þetta varð hann hissa og mælti: „Sterkur maður er Brynjúlfur á Baugsstöðum.“