Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Brennivínskúturinn (2)

Úr Wikiheimild

Einhverju sinni komu skóladrengir að austan að Söndum til Tómas gamla og voru mjög kaldir, því svo var veðri háttað. Beiddu þeir karlinn um að gefa sér hressingu. Tók hann því ekki fjærri, væri nokkuð til, en það mundi lítið vera; fór samt upp í skemmuloft og kom með kút og gutlaði nokkuð á honum, og sagði hann þeir mættu gera sér gott af því sem í honum væri. Supu þeir allir á honum hver eftir annan og urðu slampfullir. Karlinn bauð þeim að stinga kútholunni í pokahornið því hann ætlaðist alls ekki til þeir færu að leifa. Þeir fóru svo leiðar sinnar, supu á kútnum og voru alltaf slampfullir. En er þeir komu á Skálholtshamar segir einn þeirra að ekki geti það verið einleikið að aldrei skuli kúturinn tæmast. Þeytir hann honum af hörðu kasti ofan í klappirnar og brotnar hann í mola. Er þá kúturinn svo loðmyglaður innan að saman náði. Í sömu svifum voru þeir allir ódrukknir.