Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Dísa fær léðan hest

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Dísa fær léðan hest

Sýslumannsekkja nokkur bjó einhverju sinni á Stórahrauni. Stokkseyrar-Dísa bað hana að ljá sér hest og söðul út að Hlíðarenda til Brynjólfs nokkurs er þar bjó. Hann var mjög göldróttur og áttu þau oft í brösum saman. Ekkjan þorði ekki annað en að ljá henni hestinn. Nú leið og beið; hún skilaði ekki hestinum; en hálfum mánuði síðar fannst hesturinn dauður austur við Hraunsá, en söðullinn allur brotinn austur við Bjarnavörðu sem er þar spölkorn fyrir austan á sjávarbakkanum. Ekkjan þorði ekki neitt að tala um þetta því henni stóð, eins og öllum, mikill ótti af Dísu. En hálfu ári síðar kom Dísa að Hrauni og spurði konuna hvort hún vissi nokkuð um hann Jarp. Hún sagði svo vera. Dísa fékk henni tólf spesíur og sagði að það skyldi vera borgunin fyrir hann.