Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Dísa missir marks

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Dísa missir marks

Bóndi nokkur bjó í Dvergasteini í Stokkseyrarhverfi og átti dóttur eina efnilega. Dísa bað hann um stúlkuna fyrir þjónustustúlku, en hann neitaði því þverlega og grunaði nú að hún mundi verða stórreið við sig. Einu sinni var það í rökkrinu að bóndinn fór að rífa rúm sitt sem var þversum fyrir baðstofugaflinum og setti það aftur saman annarstaðar í baðstofunni. Kona hans spurði hann hvað þetta ætti að þýða; hann kvað hana það engu skipta og sagði að hún skyldi sjá það næsta morgun. En þegar fólkið vaknaði um morguninn sá það að broddstafur einn mikill stóð inn um gluggann og langt niður í gólfið þar sem rúmið hafði staðið; og héldu menn að þetta mundi án efa vera af völdum Stokkseyrar-Dísu.