Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Meinfýsi Dísu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Meinfýsi Dísu

Einu sinni voru tveir bændur, annar á Skúmsstöðum, en annar á Stóru-Háeyri; þeir áttu sinn áttæringinn hvor sem þeir létu ganga á Eyrarbakka. Dísa lét um sama leyti teinæring ganga á Stokkseyri. En þegar hún frétti að skipum þeirra gekk töluvert betur að fiska en hennar brá hún sér um miðja nótt út á Eyrarbakka, tók öll færin úr báðum skipunum, bar þau austur að Stokkseyri og fleygði þeim upp á bæjardyraloft og lét þau liggja þar þangað til þau fúnuðu og urðu ónýt. En um morguninn kemur hún út og gengur fram á sjávarbakkann. Sér hún þá bæði skipin fara út sundið og mælti hún þá: „Hjálpað hefur fjandinn þeim til að komast út á sjóinn fyrir þessu.“