Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draugarnir á Hafnarskeiði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Draugarnir á Hafnarskeiði

Eftir það „Gothenborg“ strandaði við Hafnarskeið var þar lengi reimt og sáust þar oft tveir draugar á gangi saman og var að þeim mikið mein. Menn fóru því á fund Eiríks prests og báðu hann ráða þá af. Hann mælti: „Ég get það ekki, heillin góð, en reyna vil ég að gjöra það ég get.“ Hann skrifar bréf og bað færa draugunum. Menn þessir taka við bréfinu og fara austur á Hafnarskeið. Draugarnir koma móti þeim; en þeir fá þeim bréfið. Þeir fara að lesa og leiðrétta hvor annan, og heyrðu menn til þeirra þessi orð: „Det er Hekkelfjeld, Hekkelfjeld.“ Þeir lögðu af stað og fóru í Heklu.

Svo segja sumir menn að Eiríkur léti stilla svo til að draugar sneri mót austri er þeir tæki við bréfinu og að hann léti sendimann fá þeim bréfið öfugt svo það sneri rétt fyrir draugunum. Þeir spyrja: „Hvor er det dævel Hekkelfjeld?“ Maður benti í austur þegjandi og þeir fóru af stað.