Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draumkona Eggerts
Draumkona Eggerts
Eigi höfum vér heyrt að Eggert hafi átt að koma fleirum sendingum fyrir. En þess viljum vér geta að sumir ætluðu hann hafa draumkonu sem léti hann vita ýmislegt sem fyrir honum lægi.
Svo hefur Eggert sagt að eitt sinn dreymdi hann að honum þótti kona koma til sín og spyrja sig hvort hann vildi að hún vísaði honum á hvar kona sú væri er honum væri ætluð. Þóttist hann játa því. Draumkonan sagði honum þá að hann skyldi fara upp í Þorskafjörð til bæjar þess er Gröf heitir; ætti bóndinn þar þrjár dætur og ein þeirra hefði valbrá á enni og þeirrar skyldi hann biðja. Og sem hann vaknaði tók hann að íhuga draum sinn og leizt honum að freista hversu sér félli í geð dætur Jóns bónda í Gröf. Byrjar hann nú ferð sína og finnur Jón í Gröf, hefur upp bónorðið og biður hann um elztu dóttur hans. Jón segir honum að sín vegna megi hann kjósa hverja þeirra systra er honum félli bezt í geð. Eggert hafði enn eigi séð þær; gengur nú inn þangað sem þær sátu og talar við þær. Sér hann þá að ein hefur valbrá á enni og nú kemur honum draumkonan í hug og biður hann hennar. Var það auðsótt og varð hún kona hans og unnust þau mikið.
Þessi Guðrún var þriðja kona hans og var hann hniginn maður að aldri er hann átti hana. Hún lifði mann sinn og giftist síðar Gísla Thoroddsen er þá tók við búi í Hergilsey. Er mælt að mjög mætti hún sakna fyrra mannsins því Gísli var henni mjög stirður, en hún var ágætiskona.