Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Viðskipti Eggerts og Arnfirðinga

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Viðskipti Eggerts og Arnfirðinga

Eggert átti jafnan mikinn fisk í hjöllum sínum og sóttu menn til hans víða frá til skreiðarkaupa, en hann var jafnan vanur að láta landseta sína og sveitunga ganga fyrir utanhéraðsmönnum. Eitt sinn voru margir komnir til hans er föluðu fisk og meðal þeirra voru nokkrir Arnfirðingar; neitaði Eggert að selja þeim fiskinn og kvaðst eigi mega farga meiru frá skiptavinum sínum. Gekk þá Arnfirðingur nokkur sem Jón hét inn í hjallinn þar sem Eggert vó fiskinn og kvað hann hafa nógan fisk og væri það sökum illvilja að hann vildi eigi selja hann. Þá reiddist Eggert og þreif til hans heldur óþyrmilega og snaraði honum út úr hjallinum. Arnfirðingurinn mælti þá til Eggerts: „Áður en ár er liðið vildi ég að eins sterklega yrði tekið á þér.“ Eggert bað hann að gjöra sem hann vildi og sagði að hann mætti hafa þá sendingu mergjaða er ætti að vinna sér að fullu.

Nú fór svo fram til næsta hausts eftir að eigi varð til tíðinda. Þá var það einn dag að Eggert fór til hreppskila í Svefneyjar. Var þann dag bjart og gott veður og ýfulaus sjór. En er þeir Eggert héldu heimleiðis á áliðnum degi rak allt í einu á ógurlegt veður og sjórinn umhverfðist svo undrum þótti gegna; kölluðu skipverjar það galdraveður og urðu þeir sem forviða nema Eggert einn; hann sat við stýri og bað menn sína eigi óttast, og er minnst varði þreif hann hatt sinn og jós sjó yfir höfuð sitt með honum og mælti: „Láttu þér nú nægja, ég er orðinn kollvotur.“ Sýndist hásetum síðan að logn væri þar sem skipið fór, en eigi gátu þeir séð spönn frá sér fyrir roki. En sem þeir komu að lendingunni í Hergilsey var þar ólendandi sökum brims. Eggert bað menn sína halda örugglega að landi og gjörðu þeir nú svo. En sem skipið kenndi grunns stökk hann fyrir borð í miðjan brimgarðinn og dró upp skipið, biður síðan háseta að setja, en gekk sjálfur heim til bæjar. Hafa hásetar svo sagt að þeim sýndist þá er þeir voru að lenda sem maður sæti á hleininni fyrir ofan lendinguna og væri hann að tálga spýtu og kastaði hverjum spæni út á sjóinn og yrðu þar af holskeflur er skelldu sér upp á sandinn.

Nú sem Eggert kemur heim verður fólkið honum fegið og skiptir hann nú klæðum; sýndist heimafólki sem maður stæði í loftskörunum og væri að gægjast til Eggerts. En þegar hann var búinn að hafa fataskipti stökk hann ofan og út á völl; sáu menn hann ólmast þar um stund eins og hann glímdi, en enginn sá nema Eggert einn. Nú sem lítil stund var liðin gengur Eggert út á Vaðsteinabjarg (sem svo er kallað) og kemur síðan heim móður og lúinn, en eigi vildi hann segja frá hvað hann hafði fyrir stafni.

Það varð og í Hergilsey hinn sama dag að ein kýr varð óð svo að hana varð að skera um haustið, og er skorið var ketið af öðru herðarblaði kýrinnar sáust þrjú för í beinið, allt eins og eftir fingur. Var nú haldið að draugur eða sending sem átt hefði að vinna á Eggerti hefði ollað þessu öllu saman.

Eitt vetrarkvöld bar svo við að Eggert fylgdi konu sinni til fjóss og beið þar meðan hún mjólkaði kýrnar. En er þau komu út aftur úr fjósinu mælti kona hans að hún sæi glóra í ljós tvö upp við efri bæinn í Hergilsey, og er hún hafði bent Eggerti á það tók hann hana á handlegg sér og bar inn í bæ; hleypur hann síðan út aftur og kemur inn stundu síðar, og sér kona hans að hann er eigi með eðli sínu og gengur nú á hann að segja sér hvað honum hafi mætt. Eggert var tregur til, en segir henni þó að lyktum þannig frá að þegar hún hafi bent honum á ljósin þá hafi hann þegar séð að þar glórði í augu á púka sem kæmi ofan frá efri bænum; og er hann hafi komið út aftur þá hafi púkinn verið að spegla sig í mjólkurfötunum er eftir urðu úti þegar hann bar hana inn; síðan hafi draugurinn flogið á sig og fallið fyrir sér og þá sagt við sig að hann væri vestan úr Arnarfirði og hefði verið sendur til höfuðs manni í Flatey, en Sveinn nokkur varið sér landgöngu og rekið sig aftur, og því hafi hann ásett sér að vinna einhverjum mein á heimleiðinni sem fyrir honum yrði. Eggert kvaðst þá hafa vísað honum beina stefnu heim og þyrftu menn eigi að óttast hann framar.