Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Eggert grandar vargi

Úr Wikiheimild

Það er mælt að eitt sinn legðist örn á varpið í Hergilsey og þótti að því mikil vandræði. Þá var það einn dag að Eggert kvaddi með sér menn og reri inn um eyjar. Sáu þeir þá brátt hvar assa sat á klettasnös. Eggert bað þá að róa að landi þar sem assa sat fyrir ofan og býður síðan pilti nokkrum sem var með honum að ganga upp til arnarinnar og taka hana höndum. Pilturinn fór og varð örnin eigi vör við hann fyrr en hann hafði spennt greipar að hálsi hennar, og var hún þegar dauð. Héldu menn nú að Eggert hefði svæft örnina með göldrum.

Eitt sinn lagðist bítur mikill á féð á Hjarðarnesi á Barðaströnd og kölluðu menn það stefnivarg og gjörðu Eggerti orð að hann legði ráð til að koma honum fyrir. Eggert talaði fátt um, en bað formann nokkurn er leið átti til lands þar sem örnin var að hann skyldi bera kveðju frá Eggerti í Hergilsey ef að hann mætti tófu þá er hann gengi frá skipi. Maðurinn hét því og fór leiðar sinnar. En er hann gekk heim frá skipi sá hann hvar tófa mikil og mórauð kom á móti sér. Hann mælti þá: „Eggert í Hergilsey bað mig að flytja lágfótu kveðju sína.“ Varð tæfu svo við að hún rak upp skræk mikinn og datt dauð niður, og var þetta bíturinn; ætluðu menn að kveðja Eggerts hefði orðið honum að bana.