Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Eiríkur og bóndinn
Þegar Eiríkur var prestur í Vogsósum var bóndi einn í sókn hans er aldrei kom til kirkju og gjörði hann presti það til stríðs að róa á helgum dögum um messu hvenær sem gaf. Einu sinni fór prestur til kirkju að messa. Stillti þá bóndi svo til að hann var að fara í skinnföt sín þar sem prestur fór. Hann spurði þá hvort bóndi vildi ekki gjöra það fyrir sín orð að vera við kirkju í dag. Bóndi kvað nei við og fór að fara í skinnbrók sína. Prestur gekk þá frá honum og flutti messu, fór síðan sama veg heim. Hitti hann þá bónda á sama stað. Var hann í annari brókarskálminni, en ekki hinni. Prestur kvað hann víst hafa aflað vel fyrst hann væri kominn að aftur. Sneyptist bóndi þá mjög þegar hann varð að segja hið sanna, að hann hefði setið svona síðan þeir skildu. Beiddi hann prest að losa sig. Prestur mælti: „Ef þér þykir kölski of haldsamur á þér nú, hvað mun þá síðar verða?“ Síðan skipaði prestur kölska að sleppa bónda. Varð hann þá laus og rækti kirkju sína vel upp frá því.