Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Peysan

Úr Wikiheimild

Öllum sögnum ber saman um það að Eiríki presti hafi verið send millifatapeysa, en mjög fer missögum um það hver það hafi gjört. Sögn er það fyrir norðan í Skagafirði að það hafi gjört Stokkseyrar-Dísa eins og Gísli Konráðsson segir í þætti Vogsósa-Eiríks. Selvogsmenn segja að það væri kona ein á Vestfjörðum, en Árnesingar segja að það hafi verið kvenmaður fyrir norðan. Sama segir og Runólfur Jónsson í Vík og að hún hafi verið prestsdóttir, er áður hafi átt í brösum við Eirík. Sumir segja að peysan hafi verið rauð, en aðrir að hún hafi verið fagurblá með rauðum bryddingum. En hvað sem öllu þessu líður er hitt víst að Eiríki var send peysan að gjöf og látið að gott eitt gengi þeim til er sendi, en raunar bjó það undir að kona þessi vildi reyna kunnáttu Eiríks. Selvogsmenn segja að sú er peysuna sendi hafi látið þau ummæli fylgja með að Eiríkur væri í henni er hann færi til Krýsuvíkur að messu.

Prestur tók við sendingu þessari, leit á hana og lagði hana ofan í kistu og vildi lengi ekki í hana fara. Einn sunnudag er hann átti að messa í Krýsuvík var brunagaddur. Fór hann þá í hana. Prestur hafði mann með sér; segja sumir það hafi verið drengur sá er skar setskautann úr brókum sínum til að komast af baki hesti Eiríks sem fyrr er sagt. En er þeir voru komnir út á Víðisand, aðrir segja svo langt að þeir sæju kirkjuna í Krýsuvík, fór peysan að herða að presti og svo leit út sem hann væri að brenna því hann þrútnaði allur upp og blánaði og féll af baki með froðufalli; mátti prestur þá ekki mæla, en þreifaði um sig með hendinni og benti meðreiðarmanni sínum. En aðrir segja að prestur hafi lagt undir við hann er þeir fóru frá Vogsósum að ef hann sæi sér nokkuð bregða á leiðinni skyldi hann rista utan af sér peysuna. Meðreiðarmaðurinn grípur þegar upp hníf hjá sér er hann sér hvað presti líður og ristir af honum peysuna. Raknar Eiríkur þá skjótt við og mælti: „Ég varaði mig ekki á þessu, heillin góð, því ég hafði gjört henni gott.“[1] Þakkar nú prestur fylgdarmanni sínum hjálpina og kveðst skyldi launa. Pilturinn segist ekki ætla til launa fyrir þetta, en segir að presti fari lítilmannlega að láta stelpu eina gabba sig þannig. Prestur sagði svo vera, en kvað ekki útséð um það. Eftir það tekur prestur peysuna og snýr heim með hana og læsir hana ofan í kistu sem áður.

Nú segja þeir svo frá sem láta Stokkseyrar-Dísu hafa sent presti peysuna að hann hafi setzt við að vinna og spinna gráa ull, fitjað upp á og prjónað nærpils er hann hafi sent Dísu og hafi henni þótt vænt um það því það hafi verið þykkt og skjólgott o. s. frv. En hinir segja að nú hafi liðið langt fram á vetur og Selvogsmenn segja að næsti vetur hafi komið svo ekki bæri til tíðinda.

Það var eitt kvöld um vökuna að prestur bauð heimamönnum sínum varnað á að ljúka upp bænum þó barið væri, en ganga sem bezt frá bæjardyrum, og hétu þeir góðu um það enda var þá bylur ákaflegur með frosti og fannkomu; sagði hann og að fáir mundu á ferð vera í því veðri. En ef barið væri skyldu þeir ekki hreyfa sig og ekki segja sér til ef hann yrði háttaður og heyrði ekki höggin fyrr en barið væri í þriðja sinn.

Þegar leið á nótt fram er barið að dyrum, og urðu þeir þess varir er næstir sváfu presti að hann segir: „Einhver er þar seint á ferð og látum hann berja í annað sinn.“ Er þá þegar barið enn gríðarlegar en hið fyrra sinn. Prestur segir að ekki lægi enn á að fara til dyra. Þá var barið hið þriðja sinn og nokkru linlegar. Eiríkur stendur þá upp og klæðir sig og þó heldur tómlega, fer til dyra og lýkur upp. Sér hann þar komna kunnkonu sína (prestsdótturina) þá er hafði sent honum peysuna. Hún var í skyrtunni einni og nærfatinu og hélt á næturgagni sínu í hendinni og var nær dauða en lífi af kulda. Eiríkur heilsar henni kompánlega og segir: „Nú er ekki meyjaveður úti og muntu eiga brýnt erindi heillin góð,“ og bauð henni inn. Hún var heldur sagnafá um erindi sitt til hans, en segir þó: „Ég fór út í gærkvöldi hálfháttuð að hella úr koppnum mínum, en svo var bylurinn svartur að ég fann ekki bæinn aftur, og hef ég verið að villast síðan og ekki getað losað mig við næturgagnið.“ Eiríkur mælti: „Eftir á að hyggja, ég þakka þér fyrir sendinguna heillin góð, en verr fórst þér en ég átti skilið og hefur þú nú fengið það borgað því ég olli hingaðkomu þinni og máttu vita að það er ekki gott að glettast við Eirík á Vogsósum.“ Eftir það sættust þau heilum sáttum. Segja sumir að hún hafi verið á Vogsósum um veturinn, en aðrir að hún hafi farið heim til sín þegar hún var búin að taka sig aftur eftir hrakning sinn.

  1. Af þessu er það ljóst að peysan hefur ekki verið frá Stokkseyrar-Dísu því hvergi er þess getið að hún ætti Eiríki gott upp að unna.