Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hestastuldurinn (1)
Séra Eiríkur varaði bæði smala og aðra stráka í Selvogi við því að taka hesta sína í leyfisleysi og kvað þeim mundi gefast það illa. Enda vöruðust allir smalar að snerta reiðhesta hans. Tveir drengir brugðu þó út af þessu. En jafnskjótt og þeir voru komnir á bak tóku hestarnir undir sig sprett og stefndu rakleiðis heim að Vogsósum og réðu drengir ekkert við þá. Þeir ætluðu þá að fleygja sér af baki er þeir gátu ekki stillt hestana, en þess var ekki heldur kostur því brækur þeirra voru fastar við hestbökin. „Þetta tjáir ekki,“ segir annar þeirra, „við verðum að losa okkur af hestunum; annars komumst við í hendurnar á honum séra Eiríki og af því verðum við ekki öfundsverðir.“ Síðan tekur hann upp kníf hjá sér og sker alla klofbótina úr brókum sínum og komst við það af baki. En hinn hafði annaðhvort ekki lag til að koma þessu bragði við eða hann þorði ekki að skemma brækur sínar.
Hestarnir hlupu heim að Vogsósum, annar með strákinn æpandi, en hinn með bókina fasta á sér. Prestur var úti er hestarnir komu í hlaðið; strauk hann þá bótina af baki hins lausa hests, en sagði við drenginn er reið hinum: „Það er ekki gott að stela hestunum hans Eiríks í Vogsósum. En farðu af baki og taktu aldrei oftar hesta mína leyfislaust. Lagsmaður þinn var úrræðabetri en þú og ætti hann skilið að honum væri sýndur stafur því hann er laglegt mannsefni.“ Nokkru síðar kom hann og til prests. Sýndi hann honum þá bótina og spurði hvort hann þekkti hana. Pilturinn lét sér ekki bilt við verða og sagði presti eins og farið hafði. Prestur brosti og bauð honum til sín. Það þá hinn með þökkum. Var hann lengi hjá presti síðan og honum mjög fylgisamur enda er sagt að prestur hafi kennt honum margt í fornum fræðum.
Í frásögn séra Magnúsar Grímssonar sál. er þess getið að drengurinn sem losaði sig hafi ekki viljað yfirgefa lagsmann sinn og teymt hestinn með bótina á bakinu heim á hlaðið. Eiríkur hafi þá ávarpað þá og sagt: „Hvernig þykir ykkur að ríða Vogsósaklárunum piltar?“ „Dágott,“ segir sá sem laus var, en hinn bar sig illa og bað prest að losa sig og gjörði prestur það. Hann tók og drenginn úrræðagóða og kenndi honum. Þær sagnir eru og sem segja að drengurinn hafi ekki verið nema einn er stal hestinum frá Eiríki presti og losaði sig af honum eins og fyrr er sagt. En séra Sveinbjörn Guðmundsson í Móum hefur sagt að drengirnir hafi verið þrír og allir stolið hestum Eiríks. Um tvo þeirra fór sem fyrr er getið, en hinn þriðji reið þar sem klettar skúttu fram yfir veginn; hann tók því það ráð er hann gat ekki fleygt sér af baki að hann grípur í klettinn, lyftir sér upp af hestinum til að frelsa sig og lætur hestinn fara leið sína. Þegar Eiríkur prestur komst að þessu bragði sagði hann að hægt mundi að kenna þessum pilti því hann kvaðst hafa búið svo um að hann gæti ekki komizt ofan af hestinum, en ekki hefði sér hugsazt að hamla því að hann skyldi ekki heldur komast upp af honum.