Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Förukerlingin

Úr Wikiheimild

Einu sinni sem oftar komu tveir menn til Vogsósa-Eiríks og báðu hann að kenna sér galdur. Hann segist ekki kunna galdur, en vera megi þeir hjá sér um nóttina. Þeir þágu það. Um morguninn biður Eiríkur gestina að ríða með sér út á túnið kringum bæinn sér til skemmtunar. Þeir gjöra svo. En þegar þeir voru skammt komnir frá bænum mætir þeim kerling ein gömul. Hún hafði barn á brjósti og bað Eirík að greiða eitthvað fyrir sér. Eiríkur brást reiður við og sagðist ekki bera við að gefa henni neitt. Kerling sagðist vera ekkja og eiga mikið bágt og bar sig mjög aumkunarlega. Eiríkur varð því byrstari við hana og sagði að sér væri farið að leiðast að heyra jarminn í þessum bónkjálkum, „og væri réttast að drepa ykkur, ólukku húsgangarnir.“ Þetta og fleira sagði Eiríkur við konuna, en hún bað hann því innilegar. Þá segir Eiríkur við mennina: „Þið verðið að drepa fyrir mig kerlinguna þá arna ef ég á að kenna ykkur.“ Þá segir annar gesturinn: „Aldrei hugsaði ég það Eiríkur að þú værir svona guðlaus maður og mun ég aldrei vinna slíkt ódæði hvað sem í boði væri.“ „Ekki held ég að ég geti látið þetta fæla mig frá honum séra Eiríki,“ segir hinn gesturinn, „og er ég fús á að drepa kerlinguna því það er öldungis rétt gjört að drepa þá, húsgangana þá arna. Ég held að þeir megi þakka fyrir, aumingjarnir þeir, að fá að losast við lífið.“ Eiríkur rak þenna mann frá sér og sagðist ófáanlegur til að kenna slíkum illmennum, en hinn tók hann og kenndi. Eiríkur hafði gjört mönnunum sjónhverfingu til að reyna þá því í rauninni sáu þeir enga kerlingu.