Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Eiríkur prestur grafinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Eiríkur prestur grafinn

Þegar Eiríkur prestur var að bana kominn tiltók hann hverir vera skyldu líkmenn að sér. Sagði hann að gjöra mundi haglél mikið þegar hann væri borinn út til kirkjunnar, en bað að ekki væri kistan sett niður frá því hún væri tekin upp fyrr en í kirkjunni. Sagði hann að þá mundi upp stytta élinu. En þá mundu sjást fuglar tveir, annar hvítur, en annar svartur, yfir kirkjunni og mundu þeir rífast mjög. Bað hann þess að ef hvíti fuglinn sigraði og næði að setjast á kirkjuburstina þá græfu menn sig í kirkjugarði, en ef sá svarti hefði sigurinn og settist á kirkjuna þá skipaði hann að dysja sig utangarðs; því þá væri úti um sig. Þetta kom allt fram þegar Eiríkur prestur dó, bæði um élið og fuglana, og vann hinn hvíti fuglinn sigur á þeim svarta svo Eiríkur var grafinn í kirkjugarði.