Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Enn af Sólheimatíru

Úr Wikiheimild

Um Sólheimatíruna gengur hér öldungis samhljóða saga því sem Þjóðsögurnar hafa, að því fráteknu að hún var ekki í kirkjunni, heldur í skálanum, og til sönnunar að svo hafi verið er það að þegar þeir bræður Sveinn dannebrogsmaður Alexandersson og Eyjólfur bróðir hans fluttust að Sólheimum frá Skál á Síðunni sem þá var kirkjustaður, í hinum mikla Skaftárdalseldi sem svo var nefndur, árin 1783-4, þá var skáli mikill á Sólheimum, jafnvel frá fornöld, og á einum bitanum í skála þessum þóktust þeir bræður sjá augljós merki þess er munnmælin segja, að reynt hafi verið að höggva fyrrnefnda Sólheimatíru úr bitanum, og hefði bitinn verið höggvinn nær því til miðs. Þó skáli þessi væri stór þegar þeir bræður tóku við honum veit ég þó ekki hvert hann hefur haldið sínum upphaflega vexti af því ég man ekki hvað Sveinn sál. sagði um vöxt hans. En líklegt er að eitthvað hafi verið ríkmannlegt á Sólheimum þegar þula nokkur sem enn gengur hér manna á milli myndaðist. Hún er svo látandi:

Sextán bitar í Sólheimaskála,
sextán hanar á hverjum bita,
sextán hænur hjá hverjum hana,
sextán ungar hjá hverri hænu.