Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Mannsístra

Úr Wikiheimild

Ístruna höfðu þeir þá fyrst og fremst til lásagaldurs, þ. e. til þess að komast í hverja læsingu sem vildi og getur Gröndal þess yfirdómari að helzt hafi þjófar neytt þeirrar kunnáttu þar sem hann kveður:

„Fjandann báðu með fúlum anda
fast í alla lása blása
og tröllakyn að taka á mellum
tíða fyrri grófustu þjófar.“

En bæði var það að þessu bragðalagi var ekki einungis beitt til að komast í hirzlur annara, heldur til að losa sjálfan sig úr læstum járnum, og eins þurfti meira til þess en bænina eina því hvort heldur sem vera skyldi átti sá sem ljúka vildi upp lásum að hafa upp í sér mannsístru sem hann hefði stolið úr kirkjugarði, falla svo fram fyrir læsingunni á hirzlu þeirri eða húsi sem hann vildi komast í, blása í skráargatið og hafa um leið þenna formála:

„Blæs eg svo bylur í lási
og blístra af mannsístru;
fjandinn með fúlan anda
fast í lásinn blási;
tröll upp togi mellur,
taki á púkar allir;
fetti [eða: fitli] við fótarjárni
fjandans ósjúkir púkar.
Lyftið upp lásnum allir
lifandi fjandans andar.“[1]

Hið annað sem mannsístra var höfð til var brýnugaldur. Ef maður vill að sér bíti jafnan vel við slátt skal taka mannsrif úr kirkjugarði og bita af mannsístru svo enginn viti. Ístruna á maður að láta renna sundur í munni sér og spýta á rifið og brýna svo ljáinn, en enginn má sjá það. Ekki þarf að brýna með þessu nema einu sinni á dag og flugbítur þó ljárinn hvað sem fyrir verður. En varast skal maður að líta í eggina því þeim bítur aldrei sem það gjöra[2].

Til fleira er mannsístra góð og fita af dauðum mönnum en til lásagaldurs og brýnugaldurs því hvort tveggja hefur reynzt einkar vel til ljósa og sýnir það bæði Saltvíkurtíran og Sólheimatíran. Kona nokkur í Saltvík í Þingeyjarsýslu kvartaði yfir því að sig skorti ljósmat. Var henni þá ráðlagt að hún skyldi taka hauskúpu af manni og hafa fyrir kolu og láta í hana mannsístru og brennistein. Konan lét sér þetta að kenningu verða og entist svo vel á þessum ljósmat að ekki varð slökkt á kolunni, og segja sumir að það ljós lifi enn, en svo er það dauft að til þess er jafnað og kölluð „Saltvíkurtíra“ það ljós sem illa logar.

Svo bar til að konur tvær áttu að vaka yfir líki um nótt í Sólheimakirkju í Mýrdal. Þegar leið fram á nóttina þraut þær ljósið. Þótti þeim það allillt og óskemmtilegt að vaka yfir dauðum manni í myrkrinu. Tók þá önnur þeirra það til bragðs að hún skar með hníf eitt rifið úr síðunni á líkinu með holdi og öllu sem á því tolldi, en maðurinn hafði verið ákaflega feitur. Síðan kveikti hún á öðrum enda rifsins, en festi það niður á hinum á kórbitann. Þetta ljós entist þeim ekki aðeins alla nóttina, heldur lifði það allt til þess að loksins tókst að slökkva það með sjö bræðra blóði. En svo bar ljós þetta litla birtu að til þess var jafnað eins og Saltvíkurtírunnar og er enn nefnd Sólheimatíra það ljós sem aðeins hjarir, en deyr þó ekki út.

  1. Annað bragð hafa menn og haft til að komast í læsingar, en það er með lásagrasi, sem síðar verður sagt. sbr. Þormóður opnar sölubúðir kaupmanna og Lásagras eða fjögra laufa smári
  2. Allt annað er það að hafa mannsrif fyrir ljá, sbr. Kaupamaðurinn.