Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Lásagras eða fjögra laufa smári

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Lásagras eða fjögra laufa smári

Því grasi fylgir sú renta með nafni að það lýkur upp hverri læsingu sem það er borið að. Til þess að ná því eru tveir vegir. Annar er sá ef kapalhildir eru teknar í fardögum og grafnar í jörðu nærri mýri þar sem nokkuð er rakt svo sem fet djúpt og torfan látin ofan yfir aftur. Ef svo er vitjað um á Jónsmessunótt munu. grösin vaxin.

Eftir sögnum úr Múlasýslu sem nefna gras þetta fjögra laufa smára (paris quadrifolia) á hann ekki að vera vaxinn fyrr en á þriðja ári. Síðan skal taka smárann og herða í vindi, en varast að láta sól á hann skína og bera hann á hálsi sér í silkitvinna; lýkst þá upp hver lás fyrir þeim sem gras þetta hefur.

Hin aðferðin er nokkuð meiri vandkvæðum bundin. Maður skal gjöra dyraumbúning allan með hurð, skrá og lykli og setja fyrir máríötluhreiður og læsa meðan máríatlan er ekki í hreiðrinu. Þegar hún kemur að hreiðrinu vill hún komast að eggjunum sínum eða ungunum; sækir hún þá lásagrasið og ber það að dyrunum eða stingur því í lásinn og við það opnast hann óðara og á því hafa menn fyrst komizt eftir náttúru þessa grass. Þegar máríatlan er búin að halda á grasinu skal taka það og nota eftir þurft og þörfum, en það vandhæfi liggur við að aldrei má sá sem grasið hefur vera berhöfðaður eftir það því máríatlan situr einlægt um að koma eiturormi í höfuðið á þeim hinum sama og drepa hann.

Ef maður sefur á Máríustakk óttar hann ekki í svefni né dreymir illa.