Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Fúsi flyzt frá Leirulæk

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Fúsi flyst frá Leirulæk

Svo er sagt að Fúsi hafi á efri árum sínum flutt sig frá Leirulæk suður á land; hafi hann farið frá Leirulæk undir vetur og brennt þar bæinn til kaldra kola áður hann færi; hafi þá næsti vetur á eftir verið svo góður að á hönum hafi bærinn verið að öllu byggður á Leirulæk og hafi skógarraftur verið í hann höggvinn neðst á Brekkunesi hinumegin Langár, en andspænis Leirulæk. Er nes það nú með öllu skógarlaust. Sagt er að á hrekkjum og skammapörum Fúsa hafi nokkuð minna borið eftir að hann flutti frá Leirulæk og hafi hann á Suðurlandi dáið.