Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Miðinn í handbókinni

Úr Wikiheimild

Einu sinni þegar Fúsi var við Álftanesskirkju komst hann að því að séra Jón Halldórsson var beðinn að taka fólk til bænar og hafði látið miða með nöfnum þeirra innan í handbókina. Af því Fúsi sat öðrumegin við altarið náði hann miðanum á meðan prestur sneri sér fram og tónaði, en stakk öðrum miða með þessum hendingum á aftur inn í handbókina:

„Nikulás langi
með hund í fangi;
Halldór krakur,
Baulubakur;
Valgerður flæða,
Lambastaða-læða;
Imba pula,
Valka gula;
Kristín skita,
sem allt vildi vita;
Gunna pysja,
tíkin Ysja
og Krunki.“

Þegar prestur ætlaði að fara að biðja fyrir sjúkum á eftir komst hann í mestu vandræði af því Fúsi hafði skipt um miðana.