Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Fúsi ginntur

Úr Wikiheimild

Fúsi lagði eitt sinn hug á konu nágranna síns og leitaði ýmsra bragða til að glepja hana, en tókst það ekki. Einhvern tíma lét konan það berast að bóndi sinn væri farinn að heiman; kom Fúsi þá von bráðara og leitaði samfara við hana. Tók hún þá öllu líklega og háttuðu þau saman í einni sæng. En reyndar var þetta prettur konunnar til að fæla Fúsa frá sér; því jafnsnart og þau voru háttuð kom bóndi fram undan rúminu. Hélt hann á knífi og gjörði sig líklegan til að drepa hann. Fúsi settist þá upp og kvað:

„Ég sting mér niður og steypi af dás;
stattu ei nærri kona.
Mér er ekki markaður bás
meir en svona og svona.“

Síðan steyptist hann fram úr rúminu og í jörð niður; hafði bóndi ekki meira af honum, en aldrei leitaði hann oftar á konu hans.