Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Fiskaþjófurinn

Úr Wikiheimild

Það er önnur saga af Sveini að einn snauður maður og stelinn lagðist á fiskahjall hans og tók smátt fyrst, en er hann sá að bóndi gaf sig ekki að gjörðist hann stórtækari. Eina aðfaranótt sunnudags tók hann að stela úr hjallinum og batt nú stóran bagga, gengur af stað, en nú villist hann og veit ekki hvurt halda skal; líður nóttin, lýsir af degi. Sér þá bófinn mannaferð og vill hann ekki verða fyrir þeim; gengur nú sem má, en þekkir ei að heldur hvar hann er. Fólk margt fór dag þennan til messu að Árnesi og sá manninn með fiskbagga vera að hlaupa kringum hjalla Sveins. Og eftir messu talar einhvur um þetta við Svein og gengur hann þá með nokkrum mönnum og hittir þjófsa, heilsar honum og segir: „Farðu nú heim til þín með fiskinn, en hugsaðu ekki oftar að stela frá mér. Ég hef vitað allt um þitt athæfi, en þoldi það ekki lengur án þess þú fyndir sjálfur smán þína.“