Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sveinn veiðir tófu

Úr Wikiheimild

Einu sinni bjó bóndi á Finnbogastöðum er Sveinn hét.[1] Hann var mikill aðburðamaður með margt og einkum refaveiði með boga. Fekk hann aldri minna en tíu á vetri, en oft meira. Einu sinni brást honum veiðin og var þó autt agnið á nóttu hvurri. Lagði þá Sveinn boga sinn í lækjarfljót eitt ekki mjög grunnt hjá túninu og sökkti boganum, en lét agnbitann fljóta. Að lokinni kvöldvöku vitjar hann um og er hann þá burt; þó hafði hann bundið fullan fjórðungsstein við bogastálið. Gengur þá Sveinn bóndi eftir slóð sem frá læknum lá og til þess er hann kemur að sokölluðum Kráksskerjum. Þar sér hann refinn eða þó heldur fjanda nokkurn í refslíki og dregur bogann og steininn. Nær hann þá í bogann, en skolli er þá venju meir hneigður til sjóar og vill á sund, en Sveinn heldur við. Gengur þóf þetta alllengi og notar þó Sveinn bæði kallmennsku og sín fornu vísindi. Að síðustu sigrast þessi óvinur. Ber bóndi heim veiðina, flær og hirðir belginn skolla, en ekki veiðir hann fleiri þann vetur. Um sumarið selur hann kaupmanni refstökuna, en áður þeir semdi um verð klæðist Sveinn henni og smeygir yfir höfuð sér; taka þá lappir til gólfs, var þó Sveinn hár maður. Er það eftir Sveini haft að kaupmaður hafi gefið jafnmikið fyr[ir] þetta eina skinn sem önnur tíu; þar með kallaði hann þetta magnaðan ref af Ísfirðingum sem hafi öfundað veiði sína. Líka sagði hann undarlega lausa húð refsins og nálega hvurgi fasta nema á löppum og trýni.

  1. Þ. e Sveinn Alexíusson, sjá Hústóftin á Finnbogastöðum