Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Frá galdrahöfði Leifa

Úr Wikiheimild

Það er sagt að Þorleifur tæki eitt sinn höfuð af nýdrukknuðum manni – aðrir segja það barnshöfuð verið hafa – og hefði það til spásagnar og fjölkynngi; er sagt hann vökvaði það helgu víni og brauði og geymdi ýmist í kistu sinni eða klettaskoru nokkurri ef hann vildi fréttir af hafa. Mjög vandlega geymdi hann höfuðið og leynilega; var það þó eitt sinn er Þorleifur var til kirkju farinn að Ögri að Gróa kona Þorleifs leitaði að nokkru er hún ætlaði í kistu Þorleifs manns síns; gat hún þá fundið lykla og lauk upp kistunni. Sá hún þá silkistranga í henni vandlega saman vafinn; fýsti hana að vita hve mikið vera mundi, rakti því strangann sundur, en bilt varð henni við er hún sá þar mannshöfuð í innan og því meira er henni heyrðist það segja: „Þei, þei, Gróa, far þú ekki með það sem hann Þorleifur minn á.“ Skelldi hún þá kistunni sem skjótast í lás og hrökk frá.