Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Leifi og bóndadóttir

Úr Wikiheimild

Gísli Konráðsson segir frá viðskiptum Leifa við Eirík norska; hann hafði beðið dóttur bóndans á Dynjanda í Jökulsfjörðum, en hún neitaði; heitaðist Eiríkur við hana og sagðist skyldi senda henni legunaut. Þegar sendingin kom að Dynjanda var Leifi þar gestur; er þá sagt að Leifi brygði grasi því er fjandafæla (gnaphalium) heitir, vöfðu í varnarstöfum milli draugsins og stúlkunnar svo hann komst ekki að henni. Síðan vakti hann yfir henni meir en hálfan mánuð; einu sinni sat hann á skörinni fyrir framan hana og stakk með löngum hnífi ofan fyrir pallstokkinn og kom með mannshryggjarlið upp á hnífsoddinum; var sagt niðri: „Stíkktu aftur.“ Þorleifur svaraði: „Ein bót nægir í senn.“ Síðan hvarf draugurinn og bóndadóttur batnaði.