Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Galdra-Jón

Úr Wikiheimild

Hið nafnfræga skáld Snorri prestur Björnsson á Húsafelli var fyrst prestur á Stað í Aðalvík í sex ár. Prestar þeir sem vóru þar fyrir hann höfðu margir hvur eftir annan undarlega misst heilsu sína og orðið skammlífir. Snorri prestur tók við staðnum af bláfátækri prestsekkju. Hún átti eina dóttur tólf vetra gamla sem Hildur hét. Þegar staðurinn var tekinn út sagði ekkjan presti að hún ætti ekkert til að láta í ofanálag á staðinn nema ef hann vildi fá dóttur sína. Prestur sagði það væri hvort tveggja að hann hefði lítið að gjöra við barn það enda væri sér lítil fýsn á að fá hana. Hún sagðist ekki hafa ætlað að gefa honum hana fyrir konu, „en skeð getur,“ sagði hún, „að hún geri ekki minna gagn en þær sem eldri eru.“ Það varð úr að prestur tók Hildi til sín, en ekkjan fór burt. Þess er ekki getið hvurt prestur fekk annað ofanálag eða ekki.

Snorri prestur var settur inn á staðinn eins og siður er til, en næsta sunnudag eftir messaði hann og var margt fólk í kirkju. Þegar úti var fór allt fólk úr kirkjunni og hvur heim til sín, en enginn talaði neitt við prest. Hann stóð einn eftir og gekk um gólf í kórnum. Tvær kerlingar sátu eftir utarlega í einum stól. Prestur heyrir að þær tala saman sín á milli og segir önnur: „Hvurnig þótti þér að heyra til prestsins arna, skepnan mín?“ „Mér þótti það dágott,“ segir hin, „en það er líkast til að hann ríki ekki lengi heldur en aðrir prestar hér.“ „Ég veit það ekkert,“ segir sú fyrri heldur drjúgmælt, „nema hann Galdra-Jón mun verða á ferð hér í kvöld.“ „Ekki var hann í kirkju,“ segir hin. „Ónei,“ segir sú fyrri, „hann bað um að senda til sín þegar presturinn væri búinn að messa.“ „Hann mun fara með þenna prest eins og aðra,“ segir hin, „ég læt það vera,“ segir hún, „við skulum ekki tala margt um það.“ Síðan fara þær leið sína. Prestur fór úr kirkjunni þegar honum sýndist, og fór inn í bæ. Um kvöldið segir Hildur honum að hann skuli ekki hátta því hann muni verða heimsóktur um nóttina og muni hann þurfa að vera viðbúinn. „Veiztu það?“ spyr hann. „Já,“ segir hún, „það veit ég fyrir víst.“ „Kanntu galdur?“ spyr prestur. „Nei,“ segir Hildur, „ekki kann ég galdur, en kennt hefir mér verið að fleyta skeljum.“ Um nóttina kom Galdra-Jón og segir ekki af viðskiptum hans við prest um nóttina, en um morguninn fór Jón aftur og hafði ekki áunnið það sem hann ætlaði sér. Þegar prestur kemur inn um morguninn spyr Hildur hvurnig honum hafi þótt um nóttina. Hann sagði sér hefði þótt nóg um. Hún spyr hvurt hann ætli að hann hafi verið einn að leiki við Galdra-Jón. Hann sagðist vel vita að það hefði ekki verið. „Það var mér ofvaxið,“ sagði hann, „hefði ég átt að mæta því einn.“

Nú líður til vetrar og ber ekkert til tíðinda. Þegar tími var til húsvitjaði prestur á öllum bæjum í sókninni, eins hjá Galdra-Jóni og öðrum. Galdra-Jón bauð presti að vera þar um nóttina. Hann þáði það ekki og fór heimleiðis. Hann villtist á leiðinni, en þó fór svo að hann komst heim fyrir dagsetur. Hildur var úti og segir presti að fara inn og hátta sem fljótast og skipar að láta hestinn hans inn í hesthús og var það gjört. Um nóttina þegar fólk var háttað fyrir nokkru heyrist ógurlegur dynkur. Prestur fer á fætur og tekur á Hildi og segir: „Hvað er nú til ráða?“ Hún biður hann að vera kyrran og segir að honum sé óhætt, en það sé verið að drepa hestinn hans. „Veiztu það?“ segir hann. „Já,“ segir hún. „Þá held ég víst þú kunnir galdur,“ segir hann. „Ekki kann ég annað en að fleyta skeljum,“ segir hún. Nú líður nóttin. Um morguninn áður en fólk kom á fætur kemur Galdra-Jón á gluggann hjá presti og býður honum góðan dag. Prestur tók því vel. „Þú ert galdramaður,“ segir Jón. „Nei,“ segir prestur. „Undarlegt er það,“ segir Jón, „að ég get aldrei komizt að munum við þig.“ „Það er af því,“ segir prestur, „að ég treysti guði og hann hjálpar mér, en hvurs á ég að gjalda að þú ert að veita mér árásir og ert búinn að drepa hestinn minn?“ „Hvurnig veiztu það?“ spyr Jón. „Ég veit það gjörla,“ segir prestur. „Þá muntu galdramaður vera,“ segir Jón. „Ekki fyrir það,“ segir prestur. „Við skulum ekki tala meira um þetta,“ segir Jón, „við skulum nú verða vinir og gera hvurugur öðrum mein um sex ára tíma fyrst.“ Prestur játaði því og bundu þeir það fastmælum. Síðan fór Jón heim til sín og áttust þeir ekkert við lengi síðan.

Nú liðu nokkur ár og líkaði presti æ betur og betur við Hildi, og svo kom að hann giftist henni. Þegar prestur hafði verið fimm ár á Stað og komið var á það sjötta losnaði Húsafellsprestakall. Sagði þá Hildur honum að honum væri ráðlegast að sækja um það prestakall, – „því þegar þetta ár er liðið,“ sagði hún, „þá er þér ekki lengur vært hér enda er þér ætlað að deyja á Húsafelli.“ „Það muntu ógjörla vita,“ segir prestur. „Það veit ég gjörla,“ segir Hildur. „Ég er ekki óhræddur um,“ segir prestur, „að þú kunnir galdur.“ „Ekki þarftu að vera hræddur um það,“ segir hún, „ég kann ekki annað en að fleyta skeljum eins og ég hefi áður sagt.“ „Hvað er það þá,“ spyr prestur, „að fleyta skeljum?“ Hún sagði að hann mundi verða jafnnær þó hún segði honum það; hann lét það svo vera. Hann sókti um Húsafell og fekk það.

Síðan bjóst hann burtu frá Stað um vorið eftir þegar hann hafði verið þar sex ár. Hann sendi föng sín öll sjóveg og var einn eftir með konu sinni til að afhenda staðinn. Ætluðu þau að fara landveg (?). Galdra-Jón var þar staddur við úttektina, og þegar allt var búið og hjónin fóru af stað og höfðu kvatt það fólk sem eftir var gengur Galdra-Jón að presti og segir hann skuli ganga afsíðis með sér, lézt ætla að kveðja hann þar. Prestur lét það eftir og gengu þeir í afvikinn stað. Þar var grýtt jörð. Hildur gekk eftir þeim í hámóti. Jón tók til orða: „Nú skal ég launa þér það að ég hefi aldrei getað unnið svig á þér um þau ár sem þú hefir verið hér.“ „Ekki hræðist ég þig,“ segir prestur, „því guð sem ég treysti er miklu sterkari en fjandinn sem þú treystir.“ „Við skulum sjá hvorum betur tekst,“ segir Jón og ætlar nú að fara að framkvæma töfra sína. Snorri prestur var allra manna sterkastur. Honum var það fyrir þegar hann sá hvað Jón ætlaðist fyrir að hann þrífur Jón og færir hann upp á bringu sér og kastar honum ofan í grjótið svo hann lá þar í óviti þegar þau hjón sáu seinast. Þau fóru leiðar sinnar til Húsafells, og gekk þeim vel. Prestur spurði Hildi hvort hún ætlaði að Galdra-Jón yrði jafngóður eftir byltuna. Hún sagði að hallt mundi hann höfuðið bera þó hann kæmist á fætur aftur. Snorri prestur hélt lengi spurnum fyrir hvurt Jón mundi hafa lifnað aftur og frétti hann það aldrei með vissu, en því komst hann næst að hann hefði komizt á fætur að sönnu, en aldrei hefði hann orðið heill upp frá því.