Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Flogaveika stúlkan

Úr Wikiheimild

Einhverju sinni var stúlku einni komið til síra Snorra, sem hafði undarlegan veikleika; hún fékk stundum svo mikil flog að hún hafði ekkert viðþol. Prestur lét hana vera í dyralofti er var þar, og bjó um sem hann kunni, því að hann hélt að þetta mundu vera gjörningar, en gat þó eigi læknað hana.

Einhverju sinni komu þar Norðlendingar nokkrir. Hét einn þeirra Jón og var kallaður Jón gaddi. Þeir beiddu um að drekka og fóru inn í bæjardyrnar; var prestur þar hjá þeim og var að tala við þá, en þegar hann var að tala við þá fékk stúlkan flog. Síra Snorri fór þegar upp, en þegar hann var kominn upp batnaði henni þegar. Prestur kom nú ofan aftur, en jafnskjótt sem hann var kominn ofan versnaði stúlkunni aftur. Fór svo þrisvar að henni batnaði þegar prestur kom upp, en versnaði þegar hann fór ofan aftur. Þegar prestur kom ofan í fjórða sinni sá hann að Jón horfði upp í loftið og var að hlæja. Hann spurði að hverju hann væri að hlæja. Jón sagðist vera að hlæja að því að þegar hann færi upp í dyraloftið kæmi fluga ein þaðan út, en þegar hann færi út þaðan færi hún inn aftur. Síra Snorri spurði hann hvar hún færi út og inn, því að hann þættist vera búinn að búa svo um dyraloftið að enginn færi þar inn og út nema þeir sem hann vildi. Jón sagði að kvisthlaup eitt væri á loftinu og þar færi flugan inn um og þar kæmi hún líka út þegar hann væri kominn út. Þá er sagt að síra Snorri hafi orðið hissa og sagt að það væri mein að því að þvílíkur maður hefði eigi annað en augun. Síðan gat síra Snorri læknað stúlkuna. Sagt er og að hann hafi og kennt Jóni og hafi hann orðið mjög vel að sér í fornum fræðum.