Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sendingin að vestan
Sendingin að vestan
Síra Snorri Björnsson er síðast var prestur á Húsafelli í Hvítársíðu var áður á Stað í Aðalvík, en sótti þaðan um Húsafell. Hann hafði komið sér mjög vel þar vestra; sáu menn því mjög eftir honum þegar hann fór þaðan. Í Aðalvík voru uppi um það leyti galdramenn og hugsuðu þeir síra Snorra þegjandi þörfina að þeir skyldu borga honum það að hann hefði farið frá þeim. Þeir drekktu því með fjölkynngi skipi í lendingu er það kom úr róðri, en menn alla rak upp dauða nema með einum var lítið lífsmark. Þennan mann mögnuðu þeir og sendu hann til þess að bana síra Snorra; en síra Snorra var eigi ókunnug fyrirætlan þeirra.
Eitt kveld bar svo við að barið var að dyrum á Húsafelli. Síra Snorri var inni og bauð Guðnýju dóttur sinni að ganga til hurðar; hún gjörði það, en þegar hún kom út sá hún engan kominn. Síðan fór hún inn aftur og sagði eins og farið hafði. En litlu síðar var barið aftur. Guðný gekk til dyra, en sá engan; fór svo í þrjár reisur, en þegar hún kom aftur í þriðja sinni jafnnær mætti hún föður sínum í dyrunum. Var hann skrýddur messuskrúða og hélt á patínu og kaleik. Síra Snorri gekk nú til dyra þannig búinn. Þegar hann kom út sá hann mann fyrir dyrum úti í skinnklæðum, brók og skinnstakk. Þegar hann sá prest í þessum búningi dofnaði mjög yfir honum. Prestur heilsaði honum að fyrra bragði og spurði að erindum hans, en hann sagði eins og var. Síra Snorri talaði nú við hann langan tíma, en eftir því sem þeir töluðust lengur við eftir því dró af sendingunni. Kom svo loksins að hún gat naumast staðið. Þegar Snorri prestur sá það bauð hann honum að bergja á hinum helgu dómum er hann hélt á. Sendingin þáði það, en áður en hún var búin að bergja á brauðinu og víninu dó hún, því að skrúðinn og hinir helgu dómar höfðu dregið úr fjandakraft þann sem sendingin var áður mögnuð með.