Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Galdramyndir

Úr Wikiheimild

Loksins skal hér getið mynda þeirra sem sér í lagi hafa verið kallaðir galdrastafir og er varla auðið að sjá hvort sumar þeirra heldur eru bandrúnir eða galdramyndir þó hið síðara virðist oftar verða ofan á því margar þeirra eru táknaðar með krossum og hringum, og kannast Grunnavíkur-Jón einnig við þær myndir í galdri. Fyrstu og fjölhæfustu myndirnar af þessu tagi voru stafirnir gapaldur og ginfaxi.[1] Ég held þessara mynda hafi oftast verið neytt beggja undireins því þeir hafa það sameiginlegt við sig að margir hafa ætlað að í þá tvo stafi hafi verið saman dregin nöfn Ásanna og eftir því ættu þeir að vera bandrúnir. Grunnavíkur-Jón getur og þess að þeir hafi verið ristir samtengdir í einni línu og hafi þær ristingar verið hafðar bæði til að ganga í hóla og til að senda aftur sendingar.

Þá voru þeir og báðir hafðir til glímugaldurs og fyrir þeim þessi formáli:

„Gapaldur undir hæli,
ginfaxi undir tá;
[stattu hjá mér, fjandi;[2]
því nú liggur mér á.“

Sagt er að gapaldur skyldi hafa undir hæli á hægra fæti, en ginfaxa undir tá á vinstra fæti. Stafina átti annaðhvort að rita á blað eða rista á spón eða spjald og leggja hvort heldur sem var milli skós og ílepps, en aðrir segja næst ilinni berri innan í sokknum. Þeim sem hafði glímugaldur varð ekki komið af fótunum ef hann átti við ógöldróttan mann eða þann sem ekki var meir en jafnsnjallur honum að kunnáttu. En ef sá var fjölkunnugri sem hann glímdi við gat hinn meiri kunnáttumaður þó ekki fellt þann sem glímugaldur hafði fyrri en hann fótbraut hann. Ekki dugir glímugaldur þó við ógöldróttan sé að eiga ef hann gjörir krossmark fyrir sér á glímufletinum með fætinum áður en þeir ganga saman eða taka tökum.

Tveir stafir voru og alltíðir til forna sem ég hef ekki heyrt nafn á; báðir voru þeir hafðir til að sjá þjóf og skyldi báða rista á munnlaugarbotn, hinn fyrri með blágrýtishellu, brenna einir með til ösku og bera í stafinn, láta svo vatn í munnlaugina, „og muntu sjá þjófinn“. Hinn skyldi rista á fægðan munnlaugarbotn með seguljárni, láta þar á vígt vatn og þar ofan á millefolium.

Þar næst eru tveir stafir sem skyldi bera á sér móti illum sendingum vondra manna og fylgja hér einnig myndir þeirra.

Þá er ægishjálmur. Hann var mótaður í blý og blýmyndinni þrengt á enni sér milli augnabrúna sem þessi formáli sýnir:

„Ægishjálm er ég ber
milli brúna mér.“

Með þá mynd átti maður að ganga á móti óvin sínum og var manni þá sigur vís. Eins var hann örugg vörn við reiði höfðingja og sannar hvort tveggja annar formáli sem stafnum fylgir; hann er svo:

„Fjón þvær ég af mér
fjanda minna,
rán og reiði
ríkra manna.“

Grunnavíkur-Jón ætlar að ægishjálmur sé gjörðarnafn dregið af verkun stafsins.

Kaupaloki heitir stafur einn; hann aflar manni góðra kaupa ef hann er dreginn á loðpappír og hafður undir vinstri hendi svo enginn viti. Enn nefnir Grunnavíkur-Jón molduxa og blóðuxa; þeir varna stuldi, annar á degi, en hinn á nóttu. Enga mynd hef ég séð af þeim. Þrír stafir ónefndir voru hafðir til að vekja upp drauga, en hvorki veit ég nafn né lögun á þeim.

Loksins nefni ég hér þrjá stafi: ginnir, Þórshamar og ausukross – og fylgja myndir af tveimur hinum fyrstu. Ekki er mér kunnugt til hvers tveir hinir fyrrtöldu voru hafðir, en ausukross olli meinsemdum og mörgu illu þeim sem hann var ristur. Nafn hans er að líkindum dregið af löguninni því hann er eins og rúnastafurinn sól með þverstriki yfir legginn, þannig: .

Ég skal ekki með einu orði minnast á allan þann aragrúa sem til er af innsiglum og varnarstöfum við ýmsu illu, en einungis setja hér lýsinguna á hjálparhringum Karlamagnúsar eftir galdrakverinu á stiftsbókasafninu. Þar segir að guð hafi sjálfur sent engil sinn með þá til Leó páfa og skyldi páfinn færa þá aftur Karlamagnúsi til varnar móti óvinum sínum. Hringum þessum var skipt í þrjú kerfi og voru þrír hringar í hverju. Fremsti hringur fyrsta kerfis er vörn við öllum fjandans prettum og óvinaárásum og hugarvíli, annar við bráðum dauða og niðurfalli og hjartaskelfing allri, þriðji við óvina reiði svo að þeir skelfist í hug sínum þegar þeir líta þann sem hringana hefur, „doðna þeir þá og drúpa niður“. Fremsti hringur annars kerfis er við sverðabiti, annar við apagangi og að maður villist ekki, þriðji við reiði höfðingja og allri ofsókn illra manna. Fremsti hringur þriðja kerfis aflar málasigurs í fjölmenni og vinsæli allra manna, annar er við öllum ótta, þriðji varnar líkamans lostum og munaðlífi. Þessa níu hringa skal bera á brjósti sér eða á annari hvorri hlið þá maður á von á óvin sínum.

  1. Jón Ásgeirsson hefur dregið hann hér upp.
  2. Frá [ hafa aðrir svo: „Stattu hjá mér, skratti minn“, og enn aðrir: „Styrktu mig nú, andskoti“, eða: „Djöfull studdu mig“.