Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Glettur Jóns og Þorleifs í Austdal

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Glettur Jóns og Þorleifs í Austdal

Jón sem kallaður var grái var bóndi á Dalhúsum í Eiðaþinghá. Kunningja átti hann þann er Þorleifur hét og bjó í Austdal í Seyðisfirði. Þorleifur átti hest brúnan, alinn. Þetta frétti Jón og sendi honum orð að selja sér hestinn. Þess synjaði Þorleifur, en ekki fundust þeir Jón nokkra tíma.

Einn vetur fór Jón að finna Þorleif og kom seint um kveld að Austdal, beiddist gistingar, og tók bóndi við honum vel og ræddu margt saman. Þar kom tali þeirra að Jón spyr hann um hest hans hinn brúna og segist Þorleifur hafa tekið hann til eldis að vanda. Jón vildi sjá hestinn og leyfði Þorleifur það gjarna. Fóru þeir út í hús og tekur Jón að strjúka hestinum og hæla vænleik hans og sagði: „Hann verður ekki á berleggjunum í vor.“ Þorleifur játti því og fóru þeir heim.

Um morguninn er Jón árla á fótum og býst brott. Þegar hann er farinn gengur Þorleifur að hirða Brún; en er hann kom í hús til hans sér hann hestinn dauðan. Hann lét ekki á bera og var honum það hægt því fátt var fólk á bænum. Þó sagði hann það konu sinni og vildi hún láta birkja hestinn, en hann vildi ekki.

Leið svo veturinn. Vorið kom og snjór losnaði. Þá var það eitt sinn að brúni folinn stóð á hlaðinu í Austdal fyrir bæjardyrum og var bundinn. Þá spyr konan Þorleif hvert hann ætlaði að ríða, en hann kvaðst mundu í Hérað. Ríður hann brott og kemur ekki að bæjum fyrr en Dalhúsum. Jón fagnar honum vel og segir er hann sér Brún: „Og fallegur er hann núna.“ „Já,“ segir Þorleifur, „ég hef alið hann vel í vetur.“ „Það sér á,“ segir Jón, „og viltu nú ekki selja mér hann?“ „Ekki hef ég ætlað mér það,“ segir Þorleifur, „en þó mun svo verða að vera ef ég fæ kú á móti.“ „Ég mun fá þér kú fyrir hann,“ segir Jón, „hverja er þú kýs þér af mínum kúm.“ Þessu keyptu þeir og fór Þorleifur heim með kúna, en Jón með Brún í hesthús. Og er hann ætlar í annað sinn að koma til hans þangað og hann opnar húsdyrnar varp móti honum fýlu mikilli. Sér hann þá að þar er brúni folinn úldinn og rotinn. Ekki þorði Jón að glettast við Þorleif þenna upp frá því.