Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Glettur Jóns og prófasts

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Glettur Jóns og prófasts

Þeir Jón glói í Goðdal og Jón prófastur Pálsson á Stað í Steingrímsfirði[1] áttust ýmsar glettur við; þótti prófasti Jón fást mjög við forneskju og fjölkynngi og vandaði mjög um háttu hans; mælti hann það eitt sinn við hann á Kaldrananesi að hann mundi til vítis fara nema hann hafnaði galdri og sagði lokka hans of fagra til að brenna þar. Jón kvað hann iðrast mundu þeirra orða áður hann kæmist heim til sín. Prestur fór síðan heimleiðis, en er hann kom á Grænanessand (aðrir segja á Selárodda) féll hestur prófasts dauður niður, en hann lét draga hestinn með reiðtygjum út í fjörð og fór fótgangandi heim til sín.

Það er enn í munnmælum að Jón glói (er sumir nefna glófaxa) væri einu sinni í hesthraki og leitaði fyrir sér við kirkjufund á Kaldrananesi, og gekk honum illa að fá hestinn lánaðan. Loksins hét Jón prófastur nafna sínum að ljá honum hest og sendi honum hann síðar; notaði Glói hest þann sumarlangt, en um haustið skilaði hann prófasti hestinum og spurði, hvað lánið ætti að kosta: „Það á ekki að kosta annað en það,“ sagði prófastur, „að þú hafnir galdri, en kona þín hætti að nota snakkinn (tilberann),“ og sést af því að bæði hafa þau hjón fengizt við forneskju.

  1. Þar var hann prestur 1739-1767, dó 1771.