Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Guðbjartur, sauðamaður og tófan

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Guðbjartur, sauðamaður og tófan

Hann var prestur að Laufási þegar Gottskálk Gottskálksson var biskup á Hólum. Guðbjartur prestur var spakur að viti og fjölkunnugur mjög; stilltur var hann og hóglátur og manna vinsælastur. Eitt sinn vildi svo til að tóa lagðist á sauðfénað í Laufási og voru svo mikil brögð að því að hún beit eins þó sauðamaður væri hjá fénu. Hann kvartaði margsinnis um þetta við prest og bað hann að leita einhverra bragða svo tóu yrði fyrirkomið. Prestur gaf engan gaum að þessu og sagði aðeins þegar bezt var að þessar skepnur yrðu að bjarga lífi sínu á einhvern hátt eins og aðrar.

Nú fer þessu fram frá því um haustið og fram að jólaföstu og gramdist sauðamanni mjög að prestur skyldi enga tilraun vilja gjöra ef skeð gæti að tæki fyrir slíkan dýrbítir. Svo er sagt að prestur væri oftast vanur að sofa fram í stofu. Einn morgun þegar sauðamaður var klæddur og ætlaði að reka fé í haga gekk hann fram í stofu og að rúmi prests og mælti: „Ég segi yður það hreint og einarðlega prestur góður að þetta verður sá síðasti dagur sem ég gæti fjár yðar. Mun ég fara burt og fá annan mann til að gæta fjárins; eru það firn mikil að þér viljið engra bragða leita til að koma í veg fyrir það að allt fé yðar sé drepið niður, og hvar er nú fjölkynngi yðar sem svo mikið orð er gjört á, er þér getið ekki ráðið af dögum bitvarg þenna?“ Prestur mælti: „Ekki vil ég að þú farir frá mér; hefir þú lengi þjónað mér dyggilega; ef þú verður var við tóu í dag þá skilaðu til hennar frá mér að ég vilji finna hana.“ Sauðamaður reiðist ákaflega, svarar engu og rýkur burt því honum þótti prestur gjöra gys að sér. Hann lætur út féð og rekur það upp í fjall. Fram á miðjan dag verður hann ekki var við tóu og skildi ekki hverju sætti. En um nónbil sér hann hana upp í fjallshlíðinni og stefnir hún beint til fjárins. Hann hugsar þá með sér: „Hvað er annað en ég segi henni orð prests?“ Hann kallar þá til hennar og segir: „Tóa mín! Guðbjartur prestur bað mig að skila til þín að hann vildi finna þig.“ Hún stendur við og hlustar; gengur svo ofan hjá fénu og stefnir beint ofan að Laufási. Hún gengur rakleiðis heim til bæjarins og inn í stofu til prests. Hann lítur við henni og mælti: „Þú gjörir illa tóa mín að bíta fé mitt. Farðu nú burt úr Laufáss landareign og komdu hér aldrei framar meðan þú lifir.“ Tóa gaggar hátt með auðmýktarróm, gengur svo út og upp í fjall hina sömu leið og hún kom. Frá þeim degi varð aldrei vart við hana í Laufási og tók nú fyrir allan dýrbítir.