Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Guðbjartur og Gottskálk biskup

Úr Wikiheimild

Gottskálk biskup hafði þungan hug til Guðbjartar prests því hann hafði heyrt að hann væri maður fjölkunnugur. Margir urðu líka til að segja honum ýmsar sögur þar að lútandi. Nú fréttir hann söguna um tóu og þykir nú sem Guðbjartur prestur hafi fyrirgjört fé og fjörvi. Hann tekur nú það ráð að hann sendir sex menn norður að Laufási til að sækja prest. Það segir ekki frá ferð þeirra unz þeir koma yfir Eyjafjarðará. Þá brast á þá ákafleg norðanhríð með fádæma ofviðri og frosti. Þeir halda áfram ferðinni um hríð unz svo mikil villa er komin yfir þá að þeir vita ekkert hvað þeir fara eða hvar þeir eru. Þeir nema þá staðar og vilja leita sér að einhverju skýli og láta þar fyrirberast. Þá ríður að þeim maður í hríðinni sem þeir þekkja ekki. Þeir spyrja hann að hvar hann eigi heima. „Hér nálægt,“ segir hann. Þeir spyrja hvort hann treysti sér til að rata heim til sín eður að fylgja þeim til einhvers bæjar er næstur sé. Hann segist halda það. Þeir halda nú áfram, en svo gengur lengi dags að þeir finna engan bæ. Loksins örvænta þeir um að þessi hinn ókunni maður muni ná til mannabyggða, en þykir sér vís bráður bani ef þeir megi til að liggja úti í slíkri hríð og frosti. Nú tekur að dimma af nótt og halda þeir þó ennþá áfram um hríð unz þeir hitta bæ. Þá mælti hinn ókunni maður: „Hér skulum vér af baki stíga því hérna er bærinn minn.“ Þeir spyrja hvað sá bær heiti. „Laufás,“ segir hann, „og er nú ekki annað vænna en að biðja prest gistingar.“ Hann fer inn og að litlum tíma liðnum kemur prestur til dyra – sem reyndar var hinn sami og hafði fylgt þeim um daginn. Hann fagnar gestum vel og segir þeim til reiðu gistingu og allan þann beina er hann megi þeim veita, fylgir þeim síðan inn og eru tekin af þeim snjóklæði og fengin önnur þurr og hlý að fara í. Allur beini er hinn bezti sem þeir gátu á kosið og er prestur svo blíður við þá að þeir þykjast ekki hafa fyrirhitt slíkan mann. Þar sitja þeir í viku í góðu yfirlæti því allan þann tíma var ófært veður.

Einn morgun er prestur snemma á fótum, kemur til þeirra og segir. „Nú er hríðin birt upp og komið gott ferðaveður.“ Þeir tala þá hljótt sín á milli hvernig nú skuli að fara. Ef þeir komi vestur að Hólum svo búnir verði þeir fyrir reiði biskups, en sú svívirðing muni aldrei fyrnast ef þeir sýni presti nokkra afarkosti sem hafi reynzt þeim svo góður drengur. Prestur tekur eftir þessu, fer til þeirra og spyr hvort þeir hafi nokkurt erindi við sig. Þeir segjast eiga að bera honum þau orð biskups að hann vilji hafa fund hans. „Segið heilir sögu,“ mælti prestur, „hver er heiðurinn meiri en að hitta minn góða herra?“ Hann býst nú í skyndi og fer með þeim. Ferð þeirra tekst vel unz þeir koma vestur að Hólum. Sendimenn hitta biskup og segja honum komu Guðbjarts prests. „Ég vil ekki sjá hann í kvöld,“ segir biskup. Guðbjarti presti var veittur góður beini og var hann hinn kátasti. Strax um kvöldið sendir biskup eftir næstu prestum og fleirum mönnum og skuli þeir næsta morgun koma árdegis til Hóla. Þeir komu um morguninn áður en biskup reis úr rekkju. Hann snæðir morgunverð og kallar síðan Guðbjart prest og alla komumenn út í kirkju. Nú ber biskup sakir á prest og segir hann sannan að fjölkynngi og fordæðuskap. Prestur vafði fyrir honum málið og sóttist það seint. Nú líður fram að miðjum degi og verður ekkert ágengt um sókn málsins. Þá kemur matreiðslusveinn biskups út í kirkju og segir að matur sé á borð borinn. Biskup svarar engu, en sveinninn gengur burt. Hann kemur aftur innan stundar og mælir sömu orðum. Biskup svarar ennþá engu. Í þriðja sinni kemur sveinninn og segir: „Maturinn er orðinn kaldur.“ Biskup reiðist nú ákaflega og segir: „Farðu til helvítis.“ Í sama vetfangi sökkur sveinninn niður í kirkjugólfið upp að mitti. Hann æpir hátt og biður um hjálp. Þeir sem næst stóðu hlupu til og vildu draga hann upp, en þess var ekki kostur. Hann seig því meira niður sem þeir toguðu fastara unz hann var siginn niður í gólfið upp undir hendur. Biskupi og öllum er við voru staddir brá mjög í brún er slík firn bar að höndum; það tók líka mjög á þá hve aumlega sveinninn bar sig. Svo kom um síðir að þeir átöldu biskup mjög og sögðu hann valda þessu og nú væri eina ráðið að biðja Guðbjart prest að bjarga sveininum. Biskup var tregur til, en þar kom þó að hann lét til leiðast fyrir bænastað þeirra. Prestur gjörði kost á því ef biskup handsalaði sér uppgjöf á sökum. „Mikið er slíkt,“ segir biskup og réttir fram hendina og handsalar presti niðurfall á sökum. Prestur skipar þeim öllum að fara burt úr kirkjunni og svo gjörðu þeir, en þegar þeir voru nýkomnir inn í stofu kemur Guðbjartur prestur og leiðir með sér sveininn. Biskupi var þungt í skapi, en þó setti hann prest til borðs með sér og skildu þeir sáttir að kalla. Fór Guðbjartur prestur heim að Laufási og bjó þar í næði það sem eftir var ævinnar. – Og lyktar svo þessi saga.