Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Gunna Önundardóttir

Úr Wikiheimild

Fyrrum bjó nefndarmaður einn á Kirkjubóli [á Suðurnesjum] er Vilhjálmur hét. Í hans tíð skyldi hafa verið þar í koti hjá kvenmaður er heitið hafi Guðrún og verið Önundardóttir. Hún átti skuld að gjalda Vilhjálmi að Kirkjubóli; hún hafði ekki til hvað gjalda skyldi. Hafi Vilhjálmur því tekið pottinn hennar í skuldina. Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá að henni var brugðið og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr hvörn þremilinn hún eigi að gjöra við þetta, dembdi því niður, en greip vatnsfötu og slokaði svo mikið að fólk undraðist, gekk síðan heim.

Maður sá er hjá henni var hafði róið. En er hann kom heim var Gunna dauð í bæli sínu. Það var smíðað utan um garminn og færð til Útskálakirkju. En er þeir sem báru komu miðja leið þótti þeim kistan furðulétt; þó var ekki að hugað. En þegar verið var að taka gröfina skyldi hún hafa sézt á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: „Ekki þarf djúpt að grafa; ekki á lengi að liggja.“ Eftir þetta hafi sá orðrómur lagzt á að mjög reimt væri á Skaganum[1] og til og frá þar um.

Síðan var fyrrgreindur Vilhjálmur við samkvæmi inn á Útskálum; var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar þessi orðrómur lá á var hönum boðin fylgd. En hann var hugmaður og kenndur nokkuð, þáði því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág á Skaganum illa útleikinn. Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn að vaka yfir. Nær miðri nótt komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur. Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir; þeir voru sömu nóttina út, en fengust ekki tíðara. Var þá fenginn presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það örðugustu nótt sem hann hafði lifað. Síðan var líkið jarðað og bar ekki á, en reimleikinn ágerðist og sáu allir Gunnu bersýnilega; reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til séra Eiríks á Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann hafi tekið þeim stutt og veitt afsvör unz þeir fengu hönum átta potta kút af brennivíni er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt og tók Gunna við, leysti af hnútana og leit á. Á hún þá hafa sagt: „Á a[ndskotanum] átti ég von, en ekki Vogsósakarlinum; en ekki tjáir við að standa.“ Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt þar til hún kom að hver sem er á Reykjanesi, hlaupið þar sífellt í kring unz hnýtið var endað, og þá stungizt í hverinn.

  1. Þ. e. Garðskagi.