Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Gunnuhver

Úr Wikiheimild

Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður bjó á Kirkjubóli á Rosmhvalanesi; hann dó 1706. Hann átti illt útistandandi við kerlingu eina sem hét Guðrún Önundardóttir, út af potti sem hann átti að hafa tekið af henni, líklega upp í skuld. Kerling tók sér það svo nærri að hún heitaðist við Vilhjálm.

Þegar hún var grafin var Vilhjálmur þar við, en leið hans lá um Skagann sem kallaður er fyrir utan Útskála. Hann fór heimleiðis um kvöldið, en fannst daginn eftir dauður á Skaganum og var þá allur blár og beinbrotinn. Lík hans var flutt í bænhúsið á Kirkjubóli og Gísli prestur á Útskálum fenginn til að vaka yfir því á næturnar, því allir þóktust vita að Gunna hefði drepið hann og væri nú afturgengin. Þóktist prestur eiga fullt í fangi að verja líkið fyrir kerlingu að ei drægi hún það úr höndum sér. Afturgangan magnaðist síðan mjög og nú dó ekkja Vilhjálms snögglega; var Gunnu það kennt. Fólk sem fór um Skagann villtist sumt, en sumt varð vitstola. Var það allt af völdum Goðrúnar og sáu menn nú óvætt þenna fullum sjónum. Gjörði þá Gunna skaða mikinn svo ekki var við vært mönnum né málleysingjum.

Þegar í slíkt óefni var komið og enginn gat stemmt stigu fyrir afturgöngunni, þá voru tveir menn nokkuð kunnandi sendir til fundar við séra Eirík í Vogsósum til að biðja hann hjálpar. En með því prestur var ekki alténd vanur að taka slíkum málum greiðlega, þá voru þeir látnir færa honum nokkuð af brennivíni, því allir vissu að honum þókti það gott. Sendimenn fóru nú á fund Eiríks prests og gjörðu allt eins og fyrir þá var lagt. Tók hann þeim vel, en þegar þeir fóru á stað aftur fékk hann þeim hnoða og sagði að þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á hnoðanu. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún mætti vera að ósekju. Sneru sendimenn heim við þetta og gjörðu allt sem prestur hafði fyrir þá lagt. En undireins og Gunna hafði tekið í lausa endann á hnoðanu valt það á stað, en hún fór á eftir. Sást það seinast til að hvort tveggja; hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Hefir síðan ekki orðið meint við afturgöngu Gunnu.

Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að Gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverbarminum og trítlar hún þannig einatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfbogin, því hún vill fyrir hvern mun sízt fara ofan í vilpu þessa.