Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Eiríkur er kærður fyrir galdur
Útlit
Einu sinni ætluðu margir höfðingjar að setja Eirík prest frá kjóli og kalli, því svo fóru miklar galdrasögur af honum að þeim þókti hann ekki mega vera prestur. Þeir stefndu Eiríki fyrir sig og báru það upp á hann að hann færi með galdur sem ekki sómdi neinum kristnum manni. Eiríkur prestur sagðist ekki þekkja einn staf í galdri og bauðst til að vinna þar eið að. Þeir vildu það og sór þá Eiríkur að hann þekkti ekki einn staf í galdri. Fóru þeir burtu við það kærendurnir og skildu eiðinn svo að Eiríkur kynni engan galdur. En Eiríkur lagði það í orð sín að það væri einungis einn stafur í galdri sem hann þekkti ekki. Það sagði hann seinna vin sínum og bað hann segja frá því þegar hann væri dauður, en ekki fyr. Og það gjörði maðurinn.