Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hálfdan prestur reið gandreið í Hvanndalabjarg

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hálfdan prestur reið gandreið í Hvanndalabjarg

Svo er mælt að í fornöld hafi konum í Málmey oft orðið slysagjarnt með einhveriu móti, helzt á nýársnótt. Og eitt sinn hvarf þar konan svo að hún fannst hvergi þó leitað væri. Þá var Hálfdán prestur að Felli, en þangað á Málmey kirkjusókn. Bóndi fer nú á fund Hálfdánar prests og segir honum til sinna vandræða og biður hann verða vísari hvar kona sín muni niðurkomin. Prestur kvað þess að vísu kost, en lét honum mundu það fyrir lítið koma því engar mundi hann hennar nytjar hafa þaðan af, en sýna mætti hann bónda konuna ef hann vildi. Bóndi lézt það gjarna vilja. Grár hestur var þar hjá garði prests og stígur hann þar á og biður bónda sitja að baki sér, en bannar honum að mæla nokkuð hvað sem í kunni að skerast á leiðinni. Prestur ríður nú leið sína út til Hvanndalabjargs og fer ýmist á sjó eða landi eftir því sem honum þótti leið skemmst. Svo er sagt að eitthvert sinn er þeir riðu sjóinn hnyti Gráni nokkuð svo; skaut bónda þá heldur skelk í bringu og tók að biðja fyrir sér, en prestur bað hann þegja og kvað skriplað hafa á skötu, og er það síðan að máltæki orðið. Nú koma þeir að Hvanndalabjargi og sýnir prestur bónda þar einn mikinn helli inn í bjargið; þar ganga þeir inn og getur bóndi að líta þar flögð mörg, allillileg og stórskorin. Prestur spyr bónda hvort hann kenni þar nokkuð konu sína. Bóndi kvaðst að vísu kenna hana, en þótti mjög brugðið yfirlitum hennar því nú var hún orðin flagð að sjá og bar enga líkingu mennskra manna nema skírnarkrossinn einan. Prestur kvaðst ná mega konunni ef bóndi vili, en bóndi lézt það eigi vilja að svo komnu, og snéru þeir síðan aftur.